-Auglýsing-

Segir stoðnet ekki auka lífslíkur

KRANSÆÐAVÍKKUN með stoðnetsísetningu eða hjáveituaðgerð? Það er vandi sem læknar standa frammi fyrir hjá sjúklingum með kransæðaþrengsl.

David P. Taggart, prófessor í hjarta- og æðaskurðlækningum við læknadeild Oxford-háskóla, fullyrðir í grein í British Medical Journal, að reynslan af stoðnetsísetningum í stað skurðaðgerðar hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóma sýni að þær hafi ekki haft í för með sér auknar lífslíkur fyrir sjúklinga. Í grein hans kemur jafnframt fram að skurðaðgerð sé bæði hagkvæmari og árangursríkari en stoðnetsísetning.

-Auglýsing-

Um er að ræða tvær ólíkar aðgerðir. Kransæðahjáveituaðgerð er stærri aðgerð. Brjóstholið er opnað, fólk er lengur að jafna sig inni á spítala og er tvo til þrjá mánuði að ná fyrri starfsgetu. „Henni fylgir því umtalsvert rask fyrir sjúklinginn. Hins vegar þegar um víkkun á æðum með stoðneti er að ræða er sjúklingurinn útskriftarfær daginn eftir og getur verið eftir atvikum kominn til vinnu nokkrum dögum síðar,“ segir Davíð Ó. Arnar hjartasérfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi (LSH).

Fleiri stoðnetsvíkkanir en áður

- Auglýsing-

Að öllu jöfnu er það svo að kransæðavíkkun með stoðneti hefur verið talin henta sjúklingum með eina eða tvær ákveðnar æðaþrengingar en hjáveituaðgerð talin henta þeim sem eru með tvenn til þrenn þrengsli eða þrengsli á mjög mikilvægum stöðum. „Það hefur verið ágætis samkomulag um hvernig að þessu hefur verið staðið hérlendis. Það er stigsmunur á því hvaða sjúklingar fari í kransæðavíkkun með ísetningu stoðnets og svo á hinn bóginn hverjir fari í hjáveitu. Árangurinn hefur verið góður af stoðnetsísetningum og þróunin hefur verið á þann veg að víkka frekar fleiri þrengsl en færri í stað opinnar skurðaðgerðar áður. Stoðnetsísetningar virka hins vegar ekki alveg jafnvel til lengri tíma eins og hjáveituaðgerð,“ segir Davíð.

Ekki ágreiningur meðal lækna

„Yfirleitt er ekki ágreiningur um hvaða meðferðarúrræði skuli velja, hjáveituaðgerð eða stoðnetsísetningu,“ segir Þórarinn Guðnason, hjartasérfræðingur á LSH.

Það skiptir miklu máli í þessu samhengi hvernig þrengsl eru valin. „Sum æðaþrengsl eru einföld, stutt svæði með þrengslum, og þá er tiltölulega auðvelt að víkka út kransæðar. Hins vegar eru dæmi um löng þrengsl eða þrengsl á flóknum stöðum þar sem árangur af stoðnetsísetningu er ekki jafn góður,“ segir Davíð.

Í um það bil 10% tilfella koma endurþrengsl í stoðnet vegna örmyndunar því þegar víkkað er með stoðnetsísetningu þá eru ýfðir upp ákveðnir vaxtarþættir í kransæðaveggnum. Oftast gerist þetta innan fjögurra mánaða og þá þarf að framkvæma aðra víkkun, hún heppnast í 90% tilvika.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

Morgunblaðið 18.07.2008 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-