-Auglýsing-

Sambúðin með hjartalbilun

SambúðÞað er ekki auðvelt að færa í letur hvernig sambúðin við hjartabilun er. Það er ekki beint hægt að segja að henni fylgi mikill hávaði en sambúðinni fylgja sannarlega átök.

Ég hef búið við og með hjartabilun í rúm ellefu ár og hefur það oft á tíðum verið dálítið köflótt sambúð en við höfum lært hvort á annað.

-Auglýsing-

Fyrstu árin þá hafði hún yfirhöndina og ég lá meira og minna flatur og átti verulega undir högg að sækja, ég óttaðist um líf mitt og útlitið var sannarlega ekki gott um tíma.

Samskiptum við hjartabilun er oft skipt niður í fjóra flokka sem hver hefur sín einkenni og ræður flokkunin því miklu hvernig manni reiðir af.

- Auglýsing-
  • Flokkur I: Engin skerðing á þreki; venjuleg áreynsla leiðir ekki til óeðlilegrar þreytu, mæði eða hjartsláttareinkenna
  • Flokkur II: Væg skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en venjuleg áreynsla veldur þreytu, mæði eða hjartsláttareinkennum
  • Flokkur III: Mikil skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en þau koma fram við litla áreynslu
  • Flokkur IV: Sjúklingur getur ekkert gert án þess að fá einkenni; Þau eru oft til staðar í hvíld og aukast við minnstu áreynslu

Fyrsta árið mitt þróuðust samskipti mín við hjartabilunina á hin versta veg og fóru úr III stigi yfir í það IV, mér fannst ég deyjandi maður.

Ég fór í stóra og mikla opna hjartaskurðaðgerð, þar sem fjarlægður var hluti af skemmdum vef í hjartanu mínu og ég grínaðist stundum með það að nú hefði verið fjarlægður sá hluti hjartans sem hefði tilheyrt öðrum konum en konunni minni.

Það tók mig langan tíma að jafna mig eftir aðgerðina og í nokkur ár voru samskipti mín við hjartabilunina á III stigi. Semsagt erfið, óstöðug og ég borin ofurliði flesta daga. Á þessum árum þóttu lífsgæði mín svo skert að tvisvar veltu læknar í Svíþjóð fyrir sér hvort hjartaskipti væru ekki skammt undan.

Sú varð ekki raunin þar sem ég reyndist vera stöðugur í líðan og virtist halda sjó gagnvart hjartabiluninni og voru jafnvel vísbendingar um að á góðum degi væru samskipti okkar hjartabilunarinnar meira II stigs en III stigs.

Þetta varð mér nokkuð þungur kross að bera og fannst mér það súrt í broti að vera dæmdur til samvista við jafn erfiðan sambúðaraðila og hjartabilun er.

En árin hafa liðið og við höfum lært betur hvort á hvort annað. Nú í nokkur ár hefur staðan verið þannig að samskipti okkar eru á mörkum II og III stigs og það er dálítið eins og vopnahlé. Ef ég er stilltur og tek tillit þá gengur þetta, en ef ég færi mig upp á skaftið og ætla að gerast umsvifameiri en góðu hófi gegnir, nær hún mér.

Það þarf ekki mikið til að samvera okkar færist yfir á III stig og það er leiðinlegur staður að vera á, þar bresta vonir, væntingar og lífið verður allt töluvert hægara og erfiðara viðfangs.

Nú í upphafi árs fékk ég að kynnast takmörkunum mínum á hátt sem mér fannst dapurlegur og gerði mig leiðan.

Ég hafði eignast góða vini þegar við Mjöll bjuggum úti í Danmörku og við karlarnir hittumst alltaf einn föstudag annan hvern mánuð og spiluðum spil. Aurinn sem kom í kassann var síðan settur í sjóð og annað hvert ár þá fórum við félagarnir í átta daga ferð til sólarstrandar.

Ég hafði farið í eina svona ferð þegar ég bjó í Danmörku og það þarf ekki að hafa mörg orð um að það var gaman þó svo að sambúðarerfðleika hafi orðið vart við hjartabilunina mína eftir heimkomu, en það var viðbúið en ekki alvarlegt.

- Auglýsing -

Síðastliðið haust var svo komið að því að bóka ferð og var ákveðið að við færum í okkar túr nú í mars og var mikil tilhlökkun hjá okkur félögunum og þá ekki síst mér að komast úr kuldanum í norðri og hitta þessa dönsku vini mína.

Janúarmánuður var mér ekki góður og töluvert bar á sambúðarerfiðleikum milli mín og hjartabilunarinnar minnar, veður var óhagstætt og ég fór að hafa áhyggjur af ferðinni minni. Hjartabilunin mín vildi ekki leyfa mér að fara og hamaðist í mér alla daga og gerði mér lífið erfitt.

Ég þráaðist við fram eftir janúar og byrjun febrúar en komst þá á þá skoðun að hugsanlega myndi hún ganga af mér dauðum ef ég héldi því til streitu að fara í þetta ferðalag.

Ég ráðskaðist við Mjöllina mína og sagði henni að hjartabilunin vildi ekki sleppa af mér hendina í sólina og ég hefði áhyggjur af því að ferðalagið yrði mér erfitt. Mjöll var sammála mér.

Ég ræddi við hjartalæknirinn minn og sagði honum af sambúðarerfiðleikum okkar hjartabilunarinnar og hann tók í sama streng og Mjöll að þetta yrði mér erfitt og sennilega væri skynsamlegra að láta kyrrt liggja og semja frið við hjartað.

Það var því með töluverðum trega að ég hætti við sólarferðina með félögum mínum og ef satt skal segja þá finnst mér alltaf jafn erfitt að horfast jafn harkalega í augu við takmarkaða getu mína til afhafna.

Ég bind vonir við að sambúðin fari batnandi með hækkandi sól og hjartabilunin mín fari um mig mýkri höndum.

Það er af félögum mínum dönsku að frétta, að þessa dagana sitja þeir á sólarströnd og sötra svalardrykk.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-