Það er eitt að fara á Hjartagáttina til að hafa vaðið fyrir neðan sig en það verður stigsmunur á tilfinningunni þegar innlögn á hjartadeild blasir við og frekari rannsóknir í vændum, alvarleikin verður meiri og hugsanlega er ekki allt með felldu.
Bjössinn minn liggur örmagna á hjartadeild Landspítala. Undanfarnir mánuðir hafa verið strembnir. Hann borgar fyrir það i dag.
Dagurinn í dag var skrítinn. Ég vissi að svona færi þó ég vonaði reyndar ekki. Vakti unglinginn þegar kom að því að keyra til vinnu, bað hann um að keyra mig, vera á bílnum svo hann væri klár ef þyrfti að keyra Bjössa til læknis. Taka bílinn heim svo allt gæti gengið sinn vana gang, sækja Benedikt á námskeið, sækja mig, redda kvöldmat, komast á milli staða ef hann yrði lagður inn. Svo fór og allt gekk vel.
Það er samt stundum þetta að ganga vel sem er pínu skrítið. Þegar allt gengur ennþá vel og því engin ástæða til að hafa óþarfa áhyggjur. Ég held samt að ekkert séu óþarfa áhyggjur í þessum aðstæðum. Þær eru bara einfaldlega aðstæður sem kalla á áhyggjur. En samt kalla þær á að maður sýni stillingu. Stundum dálítið skrítið.
Bjössi hringdi, var á leiðinni á Hjartagáttina, ég óskaði honum góðs gengis en hélt áfram að vinna. Það var líka allt í lagi. Svo kom næsta símtal, hann yrði lagður inn og færi í hjartaþræðingu á morgun. Það kveikti á taugakerfinu örlítið meira en ég hélt áfram að vinna. Höldum stöðugleika á meðan ekkert kallar í raun á annað.
Dagurinn gekk vel, Jónsi sótti, keyrði í búð og saman útbjuggum við kvöldmat og fljótlega svaf sá yngri, sá eldri var farinn út og ég settist niður.
Þetta var ekki mjög erfiður dagur, Bjössi er ok, úrvinnda en stöðugur, held ég. Ég er það einhvernveginn líka. Eins mikið og þetta var allt saman ok, þá er ég ótrúlega þreytt. Og döpur. Ég er líka stöðug, er ok, en það læðist um mig einmanaleiki að vera óvænt ein, Bjössi á spítala, ég minnt á sjúkdóminn hans og ég finn fyrir því í hverjum vöðva að ég vil lifa með honum, ekki án.
Það er gott.
Smá skömm, spyr mig hvort það sé óþarfa viðkvæmni að bregðast við ef þetta er ekkert. Kemur í ljós á morgun. Jafna mig og man að það er óvissan sem sannarlega tilheyrir þessu ástandi sem stríðir taugakerfinu en ekki það að mig skorti styrk eða að ég sé að bregðast óeðlilega mikið við. Merkilegt að það skipti mann máli. Er líka bara þreytt.
Þannig er þetta bara, eðlilegt að hjartasjúkdómurinn geri vart við sig endrum og sinnum, eðlilegt að það taki á og því eðlilegt að maður sé bara þreyttur og örlítið dapur um leið. Þessi ótti er hin hlið ástarinnar en ekki boðberi þess að eitthvað sé raunverulega að óttast. Við erum ok. Ég er ok. Held ég fari bara að sofa.
Mjöll Jónsdóttir hjartamaki