Hjartaþeginn Kjartan Birgisson, sem hefur gengist undir fjórar hjartalokuaðgerðir og farið yfir móðuna miklu og til baka, hvetur þá sem vilja gefa líffæri eftir sinn dag að greina sínum nánustu frá því. Þannig sé mannslífum bjargað. Á fimmta tug Íslendinga vantar nú ný líffæri.
Kjartan greindist þriggja ára með meðfæddan hjartagalla og gekkst undir þrjár opnar hjartaskurðaðgerðir fyrir 22 ára aldur.
„Árið 2005 þá datt ég niður dáinn vestur í bæ og var svo heppinn að fá lífsbjörg. Og settur í mig bjargráður til að koma í veg fyrir að ég gæti dáið aftur svona óforvarandis. Sá bjargaði mér að minnsta kosti í tvígang,” segir hann.
Það var svo árið 2009 sem Kjartan var greindur með hjartabilun á lokastigi.
„Ég var hættur að geta keyrt og ég var orðinn það slappur að aðgerð eins og að fara í úlpuna og skóna þýddi það að ég þurfti að hvíla mig áður en ég fór út í göngutúrinn, sem var þá vel innan við hálfur kílómetri og ég steinlá upp í sófa undir teppi.”
Tveimur vikum fyrir fimmtugsafmælið, í apríl 2010 fór Kjartan á biðlista eftir nýju hjarta. 19 vikum síðar fékk hann grænt ljós og fór til Svíþjóðar í ígræðslu. Hann hefur nú öðlast nýtt líf og hljóp léttilega í Hjartahlaupinu í morgun.
„Það að geta í dag tekið þátt í tíu kílómetra hlaupi er bara út úr þessum heimi og einungis geranlegt út af nýja hjartanu.”
Átján Íslendingar eru nú á biðlista eftir líffæraígræðslu, auk þess eru tólf á undirbúningsstigi fyrir biðlista og sami fjöldi á undirbúningsstigi fyrir ígræðslu nýra frá lifandi gjafa.
„Ég gat alveg beðið í mánuð, ég gat beðið í 2 mánuði, ár, 2 ár. Við vitum sögur af því að fólk hefur beðið eftir hjarta í 2 ár. Það er bara happdrætti.”
80-90 prósent Íslendinga vilja gefa líffæri eftir andlát sitt en þó neita aðstandendur líffæragjöf í 40 prósentum tilfella. Þetta þykir Kjartani miður og hvetur hann landsmenn til að ræða málið.
„Ef þú segir þínum nánustu að þú vilt láta nýta líffæri úr þér eftir þinn dag, ef til þess kæmi að þú deyrð ótímabærum dauða, þá er svo ofsalega mikið hægt að gera fyrir þá sem eru ofsalega veikir í dag. Er til betri gjöf en að gefa öðrum líf?” spyr hann að lokum.