Nýjar rannsóknir virðast sýna fram á, að poppkorn sé meinholt þar sem sprunginn maís inniheldur mikið af andoxunarefnum, sem dregur úr myndum skaðlegra efna í líkamanum. Eru andoxunarefni talin vernda líkamann gegn m.a. krabbameini og hjartasjúkdóma.
Vísindamenn í Pennsylvaníu, sem gerðu rannsóknina, segja að mikið magn af andoxunarefnum í poppkorni stafi væntanlega af því að poppmaís er ekki unnin matvara. Því fylgi öll hollu efnin, sem finnast í maísnum með þegar hann er sprengdur.
Danska blaðið Berlingske Tidende ber þetta undir næringarfræðinginn Preben Vestergaard Hansen, sem vill ekki skrifa undir fullyrðingar um að poppkorn sé hollt. Það sé 501 hitaeining í 100 grömmum af poppi, nærri jafn mikið og í súkkulaði og kartöfluflögum og því sé þetta ekkert megrunarfæði.
Hann segir einnig, að vilji fólk borða poppkorn sé best að búa það til heima. Í örbylgjupopppokum sé um það bil 25 grömm af fitu í hverjum 100 grömmum af poppkorni en um 20 grömm ef poppkorn er búið til í potti. Þá sé hluti af fitunni í örbylgjupoppkorni óhollar mettaðar fitusýrur en lagi fólk poppkornið heima geti það notað matarolíur sem innihalda ómettaðar fitusýrur.
„En ég mæli nú frekar með ávöxtum og grænmeti vilji fólk fá sér snarl,” segir Hansen.
www.mbl.is 23.08.2009