Á Mbl.is er sagt frá því að árangur sjúklinga sem þjást af offitu og gangast undir lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla er góður og skamm- og langtímalifun sambærileg við sjúklinga í kjörþyngd. Offita ætti því ekki að vera frábending þegar kemur að lokuskiptum vegna lokuþrengsla.
Þetta er niðurstaða rannsóknar sem kynnt er í nýjasta tölublaði Læknablaðsins í grein eftir Freydísi Höllu Einarsdóttur, Erlu Liu Ting Gunnarsdóttur, Sunnu Lu Xi Gunnarsdóttur, Elínu Mettu Jensen, Sindra Aron Viktorsson, Ingu Láru Ingvarsdóttur, Katrínu Júníönu Lárusdóttur, Leon Arnar Heitmann og Tómas Guðbjartsson.
Greina höfundar frá því að ósæðarlokuþrengsl séu algengasti hjartalokusjúkdómurinn á Vesturlöndum og aldurstengd kölkun lokunnar og meðfædd tvíblöðkuloka langalgengustu orsakirnar. Í nýlegri íslenskri rannsókn, sem byggði á hjartaómskoðun, reyndist algengi sjúkdómsins 4% hjá einstaklingum yfir sjötugu, en með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar sé ljóst að tilfellum muni fjölga enn frekar á næstu áratugum.
Ein helsta áskorun íslensks heilbrigðiskerfis
Ný meðferð er kynnt til sögunnar, svokölluð ósæðarlokuísetning sem rutt hafi sér til rúms. Gengur hún út á að lífrænni gerviloku er komið fyrir með hjartaþræðingartækni og hentar aðgerðin ekki síst hjá sjúklingum þar sem áhætta við opna hjartaaðgerð er talin mikil.
Segja greinarhöfundar enn margt á huldu um orsakir ósæðarlokuþrengsla en þeim áhættuþáttum sem eru þekktir virðist svipa til þeirra sem valda kransæðasjúkdómi. Þar á meðal er offita, sem einnig er talin stuðla að hraðari framgangi ósæðarlokuþrengsla. „Líkt og annars staðar á Vesturlöndum eru afleiðingar offitu ein helsta áskorun íslensks heilbrigðiskerfis og er talið að 23% fullorðinna þjáist af henni og fer hlutfallið ört vaxandi,“ skrifa höfundar.
Offita hafi almennt verið talin auka líkur á fylgikvillum í kjölfar aðgerða, einkum skurðsýkingum. Segja höfundar rannsóknir á þessum vettvangi þó misvísandi og hafi sumar þeirra jafnvel sýnt fram á betri árangur hjá sjúklingum með offitu borið saman við sjúklinga í kjörþyngd, þar sé á ferð fyrirbæri sem nefnt er offituþversögn (e. obesity paradox).
Náði til 748 sjúklinga
Ekki hafi þó tekist að sýna fram á þversögn þessa í íslenskri rannsókn á kransæðahjáveituaðgerðum en þar kom í ljós að tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni var svipuð hjá sjúklingum með offitu og sjúklingum í kjörþyngd. Hafi tengsl offitu við árangur lokuskiptaaðgerða hins vegar ekki verið rannsökuð hérlendis fyrr en með þeirri rannsókn sem nú er kynnt en erlendar rannsóknir hafa flestar einnig verið á hjáveituaðgerðum.
Náði rannsóknin til 748 sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti á Landspítala frá 1. janúar 2003 til 31. desember 2020. Leituðu rannsakendur að sjúklingum í tveimur aðskildum skrám, annars vegar sjúklingabókhaldi Landspítala þar sem leitað var að aðgerðarnúmerum fyrir ósæðarlokuskipti og hins vegar í aðgerðaskrá hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala.
Upplýsingar um dánardag og dánarorsakir fengust úr dánarmeinaskrá landlæknis. Helstu lokabreytur rannsóknarinnar voru 30 daga dánartíðni og langtímalifun.
Áhættuþættir skráðir
„Náði rannsóknin til sjúklinga sem höfðu ósæðarlokuþrengsl sem ábendingu fyrir aðgerð, en einnig voru teknir með sjúklingar sem gengust undir kransæðahjáveitu og/eða míturlokuviðgerð/skipti samhliða ósæðarlokuskiptum. Hins vegar voru ekki teknir með þeir sjúklingar sem höfðu ósæðarlokuleka án þrengsla, hjartaþelsbólgu (endocarditis), þeir sem gengust undir víkkun á ósæðarrót né þeir sem höfðu gengist undir ósæðarlokuskipti áður (re-do AVR),“ segir í greininni.
Samtals uppfylltu 756 sjúklingar inntökuskilyrði rannsóknarinnar, en sleppa varð tveimur sjúklingum þar sem upplýsingar um hæð og þyngd vantaði. Sex sjúklingar voru í líkamsþyngdarflokknum undirþyngd og var þeim einnig sleppt. Endanlegt rannsóknarþýði tók því til 748 sjúklinga.
Skráðu rannsakendur ýmis einkenni og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, svo sem sögu um háþrýsting, sykursýki, reykingar og blóðfituröskun.
Eins var skráð hvort um bráða- eða valaðgerð var að ræða og hvort aðrar aðgerðir en lokuskiptin voru framkvæmdar samtímis. Voru upplýsingar um fylgikvilla eftir aðgerð, endurinnlagnir og hvort viðkomandi lést á eftirlitstímanum færðar í gagnagrunn. Var sjúklingum fylgt eftir til 31. desember 2020 og var meðaltal eftirfylgni 6,3 ár.
Árangur góður hérlendis
Í umræðukafla greinarinnar kemur fram að árangur eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla hjá sjúklingum sem þjást af offitu sé góður hérlendis, hvort tveggja þegar litið er til skamms og lengri tíma frá aðgerð.
„Þó sjúklingar með offitu hefðu oftar áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og hærra EuroSCORE II reyndist lifun þeirra ekki marktækt frábrugðin þeirra í kjörþyngd. Þetta átti bæði við um 30 daga og langtímalifun, en dánarhlutfallið fyrstu 30 dagana eftir aðgerð var 4,5% og reyndist munurinn ekki marktækur milli hópa. Þetta 30 daga dánarhlutfall er sambærilegt og í mörgum erlendum rannsóknum þó einnig séu til rannsóknir sem lýst hafi lægra dánarhlutfalli. Í sumum þeirra eru þó ekki alltaf teknar með bráðaaðgerðir á veikustu sjúklingunum, líkt og gert var í okkar rannsókn.“
Hafi langtímalifun einnig reynst sambærileg milli þyngdarflokka, þó hafi tilhneiging sést til betri lifunar hjá sjúklingum með hærri líkamsþyngdarstuðul. Fjölþáttagreining í rannsókninni sýndi hins vegar ekki marktæk tengsl líkamsþyngdarstuðuls við langtímalifun eftir að leiðrétt hafði verið fyrir bakgrunnsþáttum sjúklinga.
Hafi sambærilegar niðurstöður sést við undirhópagreiningu þeirra sjúklinga sem fóru í lokuskipti án kransæðahjáveitu, en til samanburðar sýndi íslenska rannsóknin á hjáveituaðgerðum ekki heldur marktækan mun á lifun eftir líkamsþyngdarflokkum.
Sambærileg 30 daga dánartíðni
Fjórðungur þýðisins var í kjörþyngd, á meðan flestir voru í ofþyngd, eða 45%, rúmlega fimmtungur með offitu, 22%, og 7% með mikla offitu. Tíðni háþrýstings, sykursýki og blóðfituröskunar jókst með hækkandi líkamsþyngdarstuðli, enda tengsl þessara þátta við offitu vel þekkt.
Þá reyndust aðgerðatengdir þættir sambærilegir milli hópanna fjögurra og átti það einnig við um vélar- og tangartíma, sem kemur að sögn höfunda á óvart þar sem aðgerðir á sjúklingum með offitu þyki oft tæknilega krefjandi. Séu niðurstöður rannsóknarinnar í samræmi við flestar erlendar rannsóknir þótt sumar þeirra hafi sýnt lengri aðgerðartíma hjá sjúklingum með offitu.
Samantekið sýni rannsóknin að sjúklingar með offitu hafi sambærilega 30 daga dánartíðni og langtímalifun eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla og sjúklingar í kjörþyngd, þrátt fyrir hærri tíðni áhættuþátta og hærra EuroSCORE II. Segja höfundar niðurstöðurnar jákvæðar fyrir vaxandi hóp sjúklinga sem þjást af offitu og þurfi að gangast undir lokuskipti. Offita ein og sér ætti því ekki að vera frábending frá ósæðarlokuskiptaaðgerð.
Hér má lesa greinina í heild sinni