-Auglýsing-

Níu ár

g_og_Mjll_bÍ dag eru níu ár síðan ég fékk hjartaáfall sem breytti allri minni tilveru í víðasta skilningi þess orðs. Ég hafði verið athafnasamur í mínu gamla lífi og alltaf á ferð og flugi. Síðustu þrjú árin fyrir hjartaáfall hafði ég þó orðið var við þrekleysi sem ekki fannst skýring á þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir. Eftirá að hyggja, er afar líklegt að ástæðuna fyrir þessu þrekleysi mínu megi rekja til hjartans, að einhverju eða öllu leiti.
Ég var þrjátíu og sjö ára þegar áfallið dundi yfir og í rauninni var ég nokkuð heppin að lifa af.  Mistök áttu sér stað við greiningu mína og meðferð sem leiddu af sér mikinn skaða á hjartavöðvanum sem síðan orsakaði hjartabilun. En lífið eftir hjartaáfall hefur síður en svo verið harmsaga þó það hafi tekið mig dálítinn tíma að átta mig á því að í áfallinu fólust tækifæri, tækifæri sem ég hefði ekki endilega notið ef ekkert hefði komið upp.
Eins og ég nefndi var ég þrjátíu og sjö ára þegar ég fékk áfallið. Ég hafði verið athafnasamur allt mitt líf en hafði ekki verið alveg líkur sjálfum mér síðustu þrjú árin fyrir hjartaáfall. Það var þó ekkert sem benti til annars en ég myndi sigla upp á við að nýju, ég var hæfileikaríkur og gæddur góðum gáfum. Á þessum tíma bjó ég einn, átti engin börn en kvennamálin höfðu svolítið verið að flækjast fyrir mér síðasta árið. Ég hafði fundið jafnoka minn og sálufélaga af hinu kyninu árinu áður, hana Mjöll en okkur gekk hálf erfiðlega að púsla lífunum okkar saman.
Þremur mánuðum eftir áfallið fórum við þó að tala saman aftur eftir töluvert hlé og það var mikið gæfuspor nú small eitthvað. Ég átti samt sem áður dálítið erfitt með að skilja að ég gæti verið efnilegt mannsefni svona á mig kominn, grár og gugginn og svona alltaf hálf utan við mig af máttleysi eftir áfallið. 
Mjöll sýndi mér fram á hið gagnstæða og kveikti hjá mér lífsneista auk þess sem hún með sinni einstæðu sýn á veröldina fékk mig til að fyllast aðdáunar á eiginleikum hennar, ég varð ástfangin. Þetta var erfið ganga fyrsta árið en Mjöll stóð alltaf við hliðina á mér eins og klettur og í sorgarbylgjunum sem gengu stundum yfir mig vegna örlaga minna veitti hún mér skjól, hún elskaði mig. Það merkilega við þetta allt saman var að eftir því sem ást okkar óx ásmegin þá varð líf okkar betra og gjafirnar sem lífið gefur fóru að koma til mín. Í nóvember 2005 eignuðumst við Mjöll son, mitt fyrsta barn og þvílík gjöf. Ég sem var eiginlega búinn að sætta mig við það að ég myndi ekki eignast börn var allt í einu orðin pabbi. Allt var breytt og í huga mínum ríkti gleði og væntingar mínar til lífsins urðu meiri. Þrátt fyrir áfallið hafði mér tekist hið ómögulega. 

Allt frá því ég man eftir mér hafði mig langað til að búa erlendis en það hafði ekki gengið eftir. Sá draumur rættist hinsvegar sex árum eftir hjartaáfall og núna erum við búinn að búa hér í Danmörku í tæp þrjú ár, enn einu sinni var draumur að rætast, eftir hjartaáfall. Annað sem er merkilegt er að hér hafa lífsgæði mín aukist takturinn í samfélaginu annar og virðist eiga vel við mig. Sumarið er lengra og þó að hér geti verið kalt er ekki jafn vindasamt og fyrir mig skiptir það miklu.

-Auglýsing-

Ég hef átt gott líf síðustu níu árinn. Þau hafa ekki verið átakalaus en hafa fært mér lífsgæði sem eru af allt annarri gerð en þau lífsgæði sem ég taldi dýrmætust fyrir áfallið. Ég hef eignast lífsgleði sem er annarrar gerðar en sú lífsgleði sem ég hef áður kynnst. Ég hef haft tíma til að vera heima og njóta þess sem heimilislíf hefur upp á að bjóða, í mínu gamla lífi var ég á ferðalögum allt að 160 daga á ári og vinnudagurinn oft langur og óreglulegur. Frá því að sonur okkar hann Benedikt fæddist hefur hann aldrei kynnst öðru en að pabbi ( ég ) sé annað hvort heima þegar hann kemur af leikskólanum / skóla eða þá að ég sæki hann, það eru mikil forréttindi. Ég hef gaman af því að elda mat og hefur sú ástríða mín og okkar Mjallar heldur farið vaxandi en við höfum kannski ekki verið nógu dugleg við að halda kaloríufjölda máltíðanna í skefjum, en það er alltaf gaman í eldhúsinu okkar. 
Þegar ég lít til baka er ég er þakklátur, þakklátur fyrir að vera á lífi og þakklátur fyrir allar gjafirnar sem lífið hefur fært mér síðustu níu ár. Þrátt fyrir allt þá er líf eftir hjartaáfall og það eftirsóknarvert líf, þó það verði að viðurkennast að stundum hafi verið erfitt að koma auga á það í upphafi.
Fyrstu árin þá syrgði ég gamla Björn en eftir því sem árin hafa liðið hefur mér orðið ljóst að ennþá bý ég yfir mörgum af þeim eiginleikum sem einkenndu mig áður sumum jákvæðum og öðrum misjákvæðum. Það sem mér finnst samt einna vænst um er að ennþá brennur eldur í hjartanu mínu og suma daga fer ég töluvert fram úr sjálfum mér, ákafinn helst til mikill. Þegar það gerist þá hægi ég á en ég gefst aldrei upp. 

Árósum 9. Febrúar 2012

- Auglýsing-

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-