Í umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni hafa margir látið stór orð falla og má ljóst vera að margir eru sérfræðingarnir þegar kemur að þessu stóra máli. Margir hafa gert lítið úr mikilvægi nálægðar við Landspítala og jafnvel talað um að það sé nánast óþekkt að flugvöllur sé svo nálægt miðborginni.
Hörður Guðmundsson, eigandi og framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis þekkir vel til málsins og í viðtali við Morgunblaðið fer hann yfir hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar þegar um mikilvægt sjúkraflug er að ræða.
Hörður var sjúkraflugmaður á Vestfjörðum í rúman aldarfjórðung og segir nálægðina við sjúkrahús vera stórmál.
Ernir annast nánast allt sjúkraflug frá Reykjavík til annarra landa. „Flogið er með sjúklinga sem þurfa að vera komnir á skurðarborð á erlendu sjúkrahúsi eftir kannski fjóra til fimm tíma,“ segir hann. Þegar flogið er með sjúklinga til Gautaborgar er flugvélinni bent á að lenda á Save-flugvellinum sem er í miðborg Gautaborgar, að sögn Harðar.
„Þegar við fljúgum til Kaupmannahafnar með sjúklinga erum við beðnir að lenda í Roskilde, sem er næst sjúkrahúsinu, svo minnstar tafir verði og ef við förum til Stokkhólms lendum við í Bromma, sem er í miðbæ Stokkhólms. Þetta er krafa sjúkrahúsanna sem taka á móti sjúklingunum. Nálægðin við sjúkrahús skiptir miklu meira máli en margir vilja vera láta.“