Læknar neyðarbílsins sendu í dag frá sér tilkynningu þar sem þeirri ákvörðun um að læknar hætti að manna neyðarbíl Landspítalans er mótmælt. Læknarnir skora á íbúa höfuðborgarsvæðisins að mótmæla þessari ákvörðun.
Tilkynningin er svohljóðandi:
Þann 17. janúar nk. gengur í gegn breyting sem kynnt var í desember, að læknar hætta að manna Neyðarbíl Landspítalans og SHS. Er þar verið að gera eina stærstu breytingu á bráðaþjónustu höfuðborgarsvæðisins í langan tíma. Vikið er frá þeirri grundvallareglu að læknir bregðist við bráðaveikindum og slysum. Sú þjónustu hefur þótt sjálfsögð frá upphafi lækninga á Íslandi og mun áfram þykja sjálfsögð annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Þessi ákvörðun er tekin af Yfirstjórn Landspítalans og stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins án samráðs við félag slysa- og bráðalækna eða sérfræðilækna í bráðalækningum.
Þessi aðgerð er gerð til að verða, að hluta til, við sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fyrirhugað var að spara um 20 milljónir með þessari breytingu. Ljóst var strax frá upphafi að sparnaðurinn fyrir almenning í landinu yrði enginn. Aukinn kostnaður vegna breytinga innan Landspítalans og aukinn kostnaður við breytta þjónustu Slökkviliðsins gera það að völdum að einungis er um tilfærslu á peningum að ræða.
Það hefur komið fram opinberlega að fyrirhugað er að læknir geti brugðist við alvarlegum tilfellum með því að sjúkrabíll verði sendur eftir lækni á Slysa- og Bráðadeild og hann keyrður á vettvang. Þetta mun lengja viðbragðstíma læknis til veikustu sjúklingana en í mörgum þessara tilfella geta nokkrar mínútur skorðið milli lífs og dauða.
Einnig hefur komið fram að yfirstjórn LSH og SHS telji að þjónustan við íbúa höfuðborgarsvæðisins verði sú sama. Ljóst er að svo verður ekki.Við teljum að þetta hafi í för með sér verri bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og óttumst að það geti leitt til þjáninga og dauðsfalla sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.
Sú staða sem þeir læknar sem sinnt hafa Neyðarbílnum eru settir í er algjörlega óásættanleg læknisfræðilega. Hefur þetta leitt til þess að um helmingur þeirra lækna sem hafa sinnt þessum vöktum hafa hætt eða eru að hætta störfum á Slysa- og Bráðasviði. Aðrir eru að hugsa sín mál og munu líklega hætta á næstu mánuðum.
Ábyrgð á þessu máli liggur hjá yfirstjórn Landspítalans, stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisráðherra, alþingismönnum, borgarstjóra og bæjarstjórum höfuðborgarsvæðisins. Við hvetjum íbúa höfuðborgarsvæðisins að bregðast við og mótmæla þessum fyrirhuguðu breytingum.
www.visir.is 15.01.2008