-Auglýsing-

Meðvirkni ekki það sama og hjálpsemi

SálfræðingurinnMeðvirkni er ákveðið hegðunarmynstur einstaklings í samskiptum við annað fólk. Meðvirkni felur í sér að setja þarfir og langanir annarra framar sínum eigin og oft á eigin kostnað.  Þetta hegðunarmynstur hefur oftast þróast á löngum tíma, oft frá barnæsku, unglingsárum eða yngri fullorðinsárum.

Meðvirkir einstaklingar eiga oft á tíðum erfitt með að láta af meðvirkri hegðun, þora því ekki og finnst að þeir séu að bregðast þeim sem þeir eru meðvirkir með. „Já en ég er bara að hjálpa honum/henni“ er setning sem við sálfræðingar heyrum oft í meðferðarvinnu með skjólstæðingum.

Hvað ef meðvirki einstaklingurinn myndi ekki „hjálpa“ hinum? Afleiðingarnar eru það sem sá meðvirki óttast yfirleitt. Afleiðingarnar geta verið mismunandi og ástæðurnar geta verið margar. Meðvirknishegðun er mjög einstaklingsbundin og hver manneskja á sína sögu, hegðunarmynstur og persónulegan innri ótta.

Þegar fólk fær hjálp við meðvirkni er mikilvægt að átta sig á hvernig meðvirknin hefur mótast, hvað viðheldur henni og hvers vegna fólk þorir ekki að sleppa henni. Það er líka mjög mikilvægt að byrja að stíga fyrstu skref til breytinga. Það er ekki nóg að skilja hvernig eitthvað virkar, ef það er ekki að gera gagn þá er mikilvægt að breyta því. Það þarf ekki að taka stór stökk til að byrja með, fyrstu skrefin eru oft mjög erfið og því eðlilega eru þau minni. Fyrsta skrefið gæti t.d. verið að byrja að æfa sig í að segja „NEI“ upphátt eða að hætta einhverri ákveðinni hegðun sem gengur gegn eigin löngunum og þörfum. Mikilvægt er að velta fyrir sér nokkrum einföldum spurningum:

  1. Langar mig að gera þetta?
  2. Fyrir hvern er ég að gera þetta?
  3. Hvað gerist ef ég geri þetta ekki?

Hjálpsemi er af öðrum toga en meðvirkni. Þegar við hjálpum einhverjum er það út frá væntumþykju og/eða við finnum til samúðar. Við kjósum af eigin frumkvæði að vera til staðar eða gera eitthvað fyrir aðra manneskju og sú hegðun stríðir ekki gegn eigin löngunum og þörfum. Hún er enn fremur ekki drifin áfram af ótta við hvað gæti gerst ef við hjálpum ekki. Þegar við hjálpum annarri manneskju erum við ekki að taka ábyrgðina frá henni, stjórna eða láta stjórnast af henni.

Að lokum vil ég minna á grundvallarréttindi hverrar manneskju í mannlegum samskiptum:

  • Þú átt rétt á því að segja: „NEI“ og standa við það.
  • Þú átt rétt á að sleppa því að útskýra eða réttlæta þína eigin hegðun.
  • Þú átt rétt á að aðrir sýni þér virðingu.
  • Þú átt rétt á að skipta um skoðun.
  • Þú átt rétt á að vera ósammála skoðunum annarra.
  • Þú átt rétt á að gera mistök – og rétt á að taka ábyrgð á þeim.
  • Þú átt rétt á að segja: „Ég veit það ekki“.
  • Þú átt rétt á að taka óskynsamlegar ákvarðanir.
  • Þú átt rétt á að segja: „Ég skil ekki “.
  • Þú átt rétt á að segja: „ Mér er alveg sama“.
  • Þú átt rétt á að taka ekki ábyrgð á gjörðum annarra.
  • Þú átt rétt á að meta eigin hegðun, hugsanir og tilfinningar og að taka ábyrgð á þeim og afleiðingum þeirra gagnvart sjálfri/sjálfum þér.

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-