Axel F. Sigurðsson hjartalæknir heldur úti vefsíðunni mataraedi.is. Að tilefni af því að nú stendur yfir heilmikið átak til að hvetja landsmenn til meiri fiskneyslu fannst mér ekki úr vegi að birta þennann pistil þar sem Axel fjallar um lýsi, fisk og forvarnir.
Í gegnum tíðina hefur lýsi gegnt mikilvægu hlutverki í daglegu lífi Íslendinga. Margir muna þá tíð þegar lýsispillur voru gefnar öllum börnum daglega í grunnskólum. Á þessum tíma byggðist tiltrú okkar á lýsinu ekki á vísindalegum rannsóknum, heldur áralangri hefð og reynslu kynslóðanna. Þótt nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum lýsis á heilsu og sjúkdóma, skortir enn talsvert á vísindalega þekkingu okkar á þessu sviði. Í ljósi þess hversu stór þáttur lýsið er í daglegu mataræði okkar, er mikilvægt að auka þekkinguna á áhrifum þess á hjarta-og æðasjúkdóma sem eru algengasta dánarorsök Íslendinga. Áhugavert er að velta fyrir sér áhrifum lýsis á áhættuþætti eins og blóðfitur og blóðþrýsting.
Nýleg íslensk rannsókn bendir til þess að lýsisneysla geti haft jákvæð áhrif á blóðþrýsting meðal eldri einstaklinga. Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í nýlegu hefti Læknablaðsins. Fyrsti höfundur greinarinnar, sem ber heitið “Fæðuvenjur og fylgni við blóðþrýsting meðal eldri Íslendinga”, er Atli Arnarson næringarfræðingur. Mataræði 236 þátttakenda á aldrinum 65 til 91 árs var kannað með þriggja daga fæðuskráningu. Blóðþrýstingur var mældur hjá öllum þátttakendum í upphafi rannsóknarinnar.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þáttakendur hafi fengið meira en lágmarksskammt af flestum nauðsynlegum næringarefnum. Algengustu efni sem neytt var í of litlu magni voru D-vítamín, joð, B-6 vítamín og járn. Marktæk neikvæð fylgni var á milli lýsisneyslu og slagbilsþrýstings. Þetta þýðir að efri mörk blóðþrýstings voru lægri eftir því sem lýsisneysla var meiri. Leiðrétt var fyrir þætti sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar, eins og kyn, aldur, þyngdarstuðul og inntöku blóðþrýstingslækkandi lyfja. Sams konar tengsl sáust á milli slagbilsþrýstings og neyslu á löngum ómega-3 fitusýrum. Höfundar greinarinnar álykta að jákvæð áhrif lýsis á blóðþrýsting megi rekja til ómega-3 fitusýranna. Kemur þetta heim og saman við nokkrar aðrar erlendar rannsóknir.
Hár blóðþrýstingur er einn af þekktum áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að lyfjameðferð háþrýstings leiðir til fækkunar á heilablóðföllum og kransæðaáföllum. Þótt niðurstöður ofangreindrar rannsóknar sanni ekki orsakasamband milli blóðþrýstings og lýsisneyslu, álykta höfundar greinarinnar að “telja megi líklegt að lýsisneysla eða neysla annnarra fæðubótarefna sem innihalda fiskiolíur, lækki blóðþrýsting meðal eldra fólks og hafi þannig jákvæð áhrif á heilsufar”. Höfundarnir benda þó á að rétt sé að fara varlega í að yfirfæra þessar rannsóknir á aðra hópa, t.d. bendi íslensk rannsókn frá árinu 2006 til þess að neysla á löngum ómega-3 fitusýrum geti hækkað blóðþrýsting meðal barnshafandi kvenna.
Í tilefni af birtingu ofangreindrar rannsóknar skrifar Margrét Leósdóttir hjartalæknir áhugaverða ritstjórnargrein í Læknablaðið sem ber heitið “Fiskneysla og forvarnir”. Þar bendir Margrét á stóra, nýlega erlenda rannsókn sem ekki sýndi jákvæð áhrif ómega-3 neyslu á tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. Rannsókn þessi vakti mikla athygli, enda niðurstöðurnar ekki í samræmi við það sem margir fræðimenn hafa haldið fram. Margrét bendir hins vegar á að fjöldi rannsókna sýni ótvírætt fram á gagnsemi fiskneyslu. Evrópsku hjartasamtökin mæla með því að fiskur sé borðaður a.m.k. tvisvar í viku til að draga úr hættu á hjarta-og æðasjúkdómum.
Margrét bendir á að því miður hafi dregið úr fiskneyslu Íslendinga síðustu árin, sérstaklega meðal ungs fólks. Jafnframt benda rannsóknir til þess að lýsisneysla sé mun minni meðal ungs fólks en eldra fólks hér á landi. “Lítil neysla á fiski og lýsi meðal ungs fólks er áhyggjuefni, í samfélagi þar sem offita og hreyfingarleysi eru stór vandamál”.
Þótt enn sé margt óljóst um áhrif ómega-3 fitusýra á tilurð hjarta-og æðasjúkdóma er full ástæða til að hvetja unga sem aldna Íslendinga til þess að borða fisk og lýsi í ríkum mæli. Heilsusamleg áhrif fiskneyslu eru ótvíræð, fiskur er frábært hráefni til matargerðar og lostæti ef rétt er á málum haldið. Þá er ljóst að fá fæðubótarefni eru betri en lýsið þegar horft er til hollustunnar.