Fyrir um tíu árum síðan þá voru að koma páskar rétt eins og núna en þeir páskar og aðdragandi þeirra var ansi ólíkur þeim sem nú eru í uppsiglingu.
Tveimur síðustu vikum fyrir páskana fyrir tíu árum hafði ég eytt á Reykjalundi þar sem hugmyndin var sú að reyna koma í mig þreki sem var af afar skornum skammti eftir hjartaáfallið sex vikum áður.
Þessum vikum frá áfallinu og þangað til ég fékk að fara á Reykjalund hafði ég eitt meira og minna heima hjá mér hundveikur, skelkaður og skilningsvana á því sem hafði gerst.
Ég var langt frá því að vera búinn að átta mig á því sem fyrir mig hafði komið eða hvaða afleiðingar þetta allt saman hefði í för með sér.
Það var því með von í brjósti sem ég fór upp á Reykjalund en ég var nú ekki betur tengdur við ástand mitt en það að þegar ég fór að litast um á þessum stað þá runnu á mig tvær grímur. Mér fannst ég ekki eiga heima þar sem fólk var keyrt í hjólastólum fram og til baka og sýnir það sennilega best hvað ég hafði lítinn skilning eða tengingu við ástand mitt.
Eitt það fyrsta sem átti að gera á Reykjalundi var að setja mig í þrekpróf og þó ég vissi að ég væri ekki mjög sprækur reyndi ég að bera mig mannalega. Í þessu prófi átti að láta mig hjóla þangað til ég gæfist upp. Á mig voru fest mælitæki, hjartalínurit, búnaður til að mæla blóðþrýsting, sett upp í mig munnstykki og klemma á nefið til að meta hvernig ég nýtti súrefni. Þetta var síðan allt saman tengt tölvubúnaði sem vann svo út úr þessu öllu saman.
Ég byrjaði að hjóla og það varð strax ljóst að ég væri í vondum málum og hjartað í mér afkastaði litlu sem engu. Eftir smá stund á hjólinu féll þrýstingurinn hjá mér og mér var hjálpað af hjólinu og á sjúkrabekk, ég var gráfölur og mjög utan við mig.
Ég var keyrður inn á sjúkradeild og lagður í rúm til að jafna mig ég var miður mín og niðurbrotinn. Ástand mitt í þrekprófinu var þannig að ég náði 69 wöttum þegar ég hjólaði og hámarks súrefnisupptaka aðeins brot af því sem hún ætti að vera.
Megnið af endurhæfingunni fór fram með þeim hætti að ég lá á bekk og sjúkraþjálfarinn minn reyndi að koma lífi í kroppinn svo illa var ég staddur. En þó svo að fyrstu vikurnar mínar á Reykjalundi hafi ekki verið í takt við þær væntingar sem ég hafði þá hjálpaði tíminn mér á Reykjalundi að melta þær staðreyndir sem við blöstu, að lífi mínu eins og ég þekkti það væri lokið og við tæki eitthvað allt allt annað sem var mér bæði framandi og alls ókunnugt. Ég var komin með alvarlega hjartabilun og útlitið satt best að segja dökkt, skaðinn eftir hjartaáfallið og mistökin við greiningu mína og meðferð var smám saman að taka á sig mynd og sú mynd var ekki fögur.
Lundurinn (Reykjalundur) minn reyndist mér skjól í nokkur ár og fyrir það er ég þakklátur. Það var mikil huggun í því fólgin að eiga skjól þar sem mér var mætt á þeim stað sem ég var staddur á í það og það skiptið. Á Reykjalundi fékk ég ró og næði um leið og ég fann leiðir til að takast á við þetta gjörbreytta líf mitt og koma auga á vonarglætur mitt í öllum veikindunum.
Mér fannst erfitt að horfast í augu við þá staðreynd að ekkert gekk að berja í mig þreki og mér fannst það erfið tilhugsun að vera jafn fatlaður eins og raun bar vitni.
Stundum varð dauðinn mér hugleikinn og ég velti því fyrir mér af hverju ég hefði ekki bara fengið að deyja, þá væri þessu lífi mínu í örkuml lokið og ég væri frjáls eins og fuglinn.
En dauðinn átti ekki fyrir mér að liggja að þessu sinni og fyrir það er ég þakklátur því þegar bráði af mér sá ég fegurðina í lífinu og þrátt fyrir að líf mitt allt væri breytt og ég þrotin af kröftum ól ég von í brjósti um að geta eignast gott líf.
Það má segja að með hjálp fólksins á Reykjalundi og sálfræðinganna minna sem ég notaði óspart hafi mér tekist að komast á þann stað að lífið hafði meira vægi en dauðinn, ég hafði kosið lífið.
Mér finnst satt best að segja dálítið merkilegt að hugsa um þetta svona tíu árum seinna því ég var satt best að segja ekki sérlega bjartsýnn um að ná fertugsaldrinum í kjölfar áfallsins.
En þó svo að endurhæfingarganga mín hafi ekki verið sú sigurganga sem vonir stóðu til þreytist ég ekki á því að segja frá því að ég hef eignast gott líf sem er gleðilegt þrátt fyrir takmarkaða heilsu en að mínu mati ótrúlega góð lífsgæði miðað við allt og allt, lífsgæði eru þó alltaf dálítið matskennd en ég er sáttur.
Á einhvern hátt hef ég fundið leið til að njóta og deila með öðrum, elska og vera elskaður. Það er mér mikilvægt nú þegar páskahátíðin er í nánd þar sem dauði er meginþema, að fagna lífinu því það er ekki svo sjálfsagt.
En hér sit ég semsagt tíu árum eftir öll þessi ósköp, hugleiði lífið, bíð eftir vorinu sáttur við Guð og menn, þakklátur öllu fólkinu sem hefur verið mér gott í gegnum tíðina og hefur stutt mig áfram. Ég er þakklátur fyrir að hafa eignast drengina mína og Mjöllinni minni fyrir það að hafa haft trú á mér í gegnum öll árin.
Gleðilega páska
Reykjavík 26.03.2013
Björn Ófeigsson