Læknadagar voru settir við hátíðlega athöfn í Háskólabíó í gær og standa þeir út vikuna með tilheyrandi málstofum og ræðuhöldum. Birgir Jakobsson, forstjóri Karolinska Universitetssjukhuset í Svíþjóð, flutti erindi um hlutverk lækna í stjórnunarstöðum í Háskólabíói á opnunardeginum. Hann hefur sinnt stjórnunarstörfum um árabil og sagði í samtali við Morgunblaðið að meginefni umfjöllunar sinnar tengdist þeim vandamálum sem heilbrigðiskerfi margra ríkja standa frammi fyrir nú á dögum, þ.e. auknum kostnaði, gagnrýni á öryggi sjúklinga, gæði og aðgengileika þjónustu og mörgu öðru sem betur mætti fara í heilbrigðisþjónustu.
Áhugaleysi stendur kerfinu fyrir þrifum
„Því hefur verið haldið fram að heilbrigðisgeirinn taki treglega við breytingum sem aðrar greinar samfélagsins hafa tekið til sín. Semsagt að það sé íhaldssemi í heilbrigðiskerfinu. Það hefur orðið gífurleg framþróun í lyfjaframleiðslu og tæknivæðingu, en á sama tíma hafa vinnubrögðin sjálf, hjá stjórnendum í heilbrigðisgeiranum, lítið breyst síðastliðin tuttugu til þrjátíu ár. Fólk vinnur ennþá á svipaðan hátt þrátt fyrir alla þá þróun sem hefur átt sér stað í þessum geira og sérstaklega í öðrum geirum samfélagsins. Þetta held ég að standi kerfinu fyrir þrifum og að einhverju leyti má rekja þetta til áhugaleysis lækna á stjórnun,“ segir Birgir. Áhugi þeirra á stjórnun hafi lengi mátt víkja fyrir því sem drífur flesta þeirra áfram, þ.e. að ná einhvers konar einstaklingsbundinni fullkomnun á afmörkuðu fræðasviði.
„Þá galla sem eru í heilbrigðisgeiranum í dag má að mestu leyti rekja til kerfisgalla,“ bætir Birgir við. „Mjög sjaldan er um að ræða lélega kunnáttu einstaklinga eða skort á góðu starfsfólki. Heldur er það vegna þess að kerfið sjálft virkar ekki vel, og það getur ógnað öryggi sjúklinga. Ég hef haft áhuga á því að bæta kerfið.“
Líta á sig sem fórnarlömb breytinga
Hann kveður nauðsynlegt að læknar sýni stjórnun meiri áhuga, taki meiri heildarábyrgð, og taki virkan þátt í þeim breytingum sem þurfa að verða, frekar en að líta á sig sem fórnarlömb þeirra þegar aðrir taka að sér ábyrgðina. Hingað til hafi hjúkrunarfræðingar staðið læknum mun framar í stjórnun en það dugi ekki til. „Ef læknar eru með í þessu starfi ganga breytingar fljótar og betur fyrir sig. Þeir þurfa að opna augun fyrir því hvað þarf að gera og taka sjálfir ábyrgð á því að koma því í framkvæmd.“ Birgir kveður þó bót í máli að æ fleiri læknar afli sér menntunar í stjórnun og læri hvað þarf til þess að koma af stað breytingum. Þetta tengir hann því að læknadeildir víða hafa tekið stjórnun inn í sínar námskrár og séu jafnvel farnar að stunda rannsóknir á stjórnun og árangri mismunandi stjórnsýslukerfa. Viðhorf til stjórnunar séu að verða akademískari, sem aftur auki áhuga lækna. Birgir talaði einnig um vinnubrögð við breytingar á Læknadögum. „Það er mikilvægt að þær séu gerðar í samráði, með fullri hlutdeild starfsfólks. Oft eru stjórnendur ekki hæfastir til að meta þörfina fyrir breytingar. Stundum er starfsfólkið mun betur til þess fallið.“
Þrátt fyrir að gagnrýna starfsbræður sína segist Birgir skilja tregðuna gegn breytingum vel. Hann hafi til að mynda aldrei ætlað sér að enda í stjórnunarstarfi, heldur stefnt á það eins og allir aðrir læknar að verða bestur á sínu fræðasviði. „En svo var ég dreginn inn í þetta hálfpartinn gegn eigin vilja, og féllst á það eftir langa mæðu að taka að mér einhver takmörkuð stjórnunarstörf. Svo tók eitt við af öðru og hér er ég í dag.“
Eftir Önund Pál Ragnarsson
Morgunblaðið 22.01.2008