Á dögunum var fylgiblað Morgunblaðsins tileinkað hreyfingu og lífsstíl. Í blaðinu var meðal annars rætt við Erlu Gerði Sveinsdóttir sem er meðal annars læknir hjá Heilsuborg. Rætt var við hana um lífsstílsbreytingar og hvernig best sé að hrinda þeim í framkvæmd. Við fengum leyfi hjá Heilsuborg að birta pistilinn.
Landinn kemur misvel undan sumarfríi eins og gengur og margir hugsa sér til hreyfings þegar hausta fer með tilheyrandi rútínu að loknum leyfum. Fátt er þá eins freistandi og að detta niður á hentuga skyndilausn til að leysa málið í snarhasti. En slíkt flas er sjaldnast til fagnaðar. »Ég er alltaf miklu hrifnari af lífsstílsbreytingu til lengri tíma frekar en átaki eða kúr,« segir Erla Gerður. »Það er allt í lagi að taka spretti í lífsstílsbreytingunni, en ef maður er að gera eitthvert átak og hlaupa í aðra átt en maður vill vera að fara með heilsuna sína þá er þetta ekkert sérstaklega skynsamlegt. Orkunni er ekki vel varið í það. En ef maður er búinn að staldra við og skipuleggja sig þá er allt í lagi að taka á því af krafti í einhvern tíma. Ennþá betra er að leggja upp svolítið plan, byggja góðan grunn og taka svo sprettinn. Það finnst mér alltaf best. Það reynir pínulítið meira á þolinmæðina en langtímaávinningurinn er alltaf miklu betri.«
Skipulag er til alls fyrst
»Málið er nefnilega að það þarf ekki að gera allt í einu,« bætir Erla Gerður við. »Með því að taka þetta skref fyrir skref, átakalaust og öfgalaust þannig að manni líði bara vel og hafi jafnvel gaman af.« Og hvaða skref skyldu þá vera vænlegust til árangurs?
»Mér finnst alltaf best að byrja á því að skoða það hvernig dagurinn er hjá mér. Hvernig er reglan, hvernig er skipulagið? Það sem þarf fyrst að koma inn í það skipulag er regla á matmálstíma. Alltaf að borða innan við klukkutíma eftir að við vöknum, borða svo í framhaldinu reglulega yfir daginn. Svo þurfum við að setja upp hvernig við getum hreyft okkur og það þarf ekki að vera einhver rosalega flókin og mikil hreyfing. 5 mínútur hér og 10 mínútur þar, þetta skiptir allt máli. Allt telur. Svo getur maður flækt þetta smám saman eftir því sem tími og aðstæður gefast. En ef maður byrjar á því að koma á reglu og skipulagi, þá er allt miklu auðveldara. Annars fer þetta bara að flækjast fyrir manni, þú pirrast og ert ekki að koma því í verk sem lagt var upp með. Og þá er stutt í að maður fari að brjóta sig niður fyrir að vera enn einu sinni búinn að klúðra hinum góða ásetningi og áformum sem lagt var af stað með. Eitt það mikilvægasta í þessu sambandi er að horfa á »hvað get ég gert« en ekki »hvað get ég ekki gert«, því ef maður festist í því síðarnefnda þá verður þetta bara mjög erfitt.«
Skrefin sem skipta máli
Þegar einhver mynd er komin á skipulagið og regla komin á máltíðirnar er mál til komið að huga að innihaldinu. »Þá förum við að setja inn það sem þarf til að mataræðið verði fjölbreytt og öll næringarefnin komist inn, því þá helst líkaminn í jafnvægi, blóðsykurinn helst jafn og þér líður vel. Þvínæst förum við að huga að magninu, passa að maður borði hæfilega mikið svo maður sé passlega saddur. Það er hvorki gott að svelta sig né borða yfir sig. Síðan fer maður að taka fyrir venjurnar. Hætta að borða fyrir framan sjónvarpið, hætta að borða á hlaupum og svo framvegis. Þetta er röðin á því sem gera þarf. Þetta er svo einfalt.« Erla Gerður bætir því þó við að einfaldleikinn sé ekki alltaf auðveldastur og þar af leiðandi ekki vinsælasta lausnin. »Það nennir hinsvegar næstum enginn að hlusta á þetta, því þetta er ekki nógu mikil töfralausn í sér. En þegar fólk er búið að fara í gegnum hverja töfralausnina á fætur annarri þá sér það náttúrulega hægt og rólega að þetta er málið, þegar allt kemur til alls.«
Að vanda markmiðasetningu
Erla Gerður minnir á að slíkar breytingar verði alltaf að hafa mann sjálfan sem útgangspunkt. Ef maður gerir hlutina ekki eins og hentar manni sjálfum sé viðleitnin dæmd til að verða að kúr, ekki lífsstílsbreytingu. »Maður verður að skoða sjálfan sig og spyrja »hvað passar fyrir mig«. Þetta er það sem við leggjum svo mikið upp með hjá Heilsuborg, það er að finna hvar maður er staddur, hvert maður á að fara þaðan og í hvaða skrefum. Ef maður byrjar bara einhvers staðar er eins víst að maður endi bara einhvers staðar.« Hún nefnir í því sambandi mikilvægi markmiðasetningar; þar gildir að setja sér ekki alltof háleit og óraunhæf markmið. Það sé því miður allt of algengt. »Það er gott að hluta markmiðin niður svo þau verði viðráðanleg. Það er ekkert eins gott eins og sigurtilfinningin sem fylgir því að ná markmiðum sínum en um leið er það niðurbrjótandi að ná þeim ekki. Þá fer maður að svekkja sig og tala sig niður. Þess vegna er svo mikilvægt að vanda til markmiðasetningar, og það er eitt af því sem við kennum í Heilsuborg, að læra að setja sér markmið. Óraunhæf markmið eru til jafn mikillar óþurftar og raunhæf markmið eru gagnleg.«
Góður svefn gulli betri
Rétt eins og við erum mörg eru leiðir okkar til betra ásigkomulags og betri heilsuræktar margvísleg. Erla Gerður segir að samt sem áður séu Íslendingar upp til hópa að gera sömu skyssuna þegar kemur að mataræðinu. »Langoftast er það svo að fólk borðar allt of lítið fyrripart dagsins og allt of mikið seinnipartinn. Mjög margir sleppa morgunmat eða borða mjög lítið, en eru svo nartandi meðan þeir elda kvöldmat, borða svo kvöldmat og narta áfram fram eftir kvöldi, allt vegna þess að líkaminn er í svo miklu ójafnvægi. Hann er alltaf að leitast við að laga það sem farið hefur úrskeiðis.« Hún bætir því við að streituþátturinn sem er svo ríkjandi í þessari þjóð sé líkast til þess valdandi að allt of margir hérlendis sleppi morgunmatnum. »Með því að sleppa honum erum við hinsvegar að rýra lífsgæði dagsins alls. Þetta er vandi sem er tilkominn daginn áður; við erum að hanga í tölvunni eða fyrir framan sjónvarpið fram eftir öllu, sofum illa og erum ómöguleg að morgni, og þar með er oft morgunmatur fyrir bí. Svefn skiptir alveg gríðarlega miklu máli, miklu meira en við höfum verið að átta okkur á til þessa. Það er svo margt sem gerist í líkamanum í svefninum. En af því við þurfum að vinna svo mikið og hvílumst þar af leiðandi ekki nóg þá verða þarna til snjóboltaáhrif sem ekki eru til góðs. Við verðum eins og hamstrar í hjóli og þeir fá enga hvíld.«
Erla Gerður bætir því við að stór hluti Íslendinga sé með lífsstíl sem sé ekki heilsusamlegur og því ekki til þess fallinn að stuðla að heilbrigði né hjálpa fólki að njóta lífsins. »Þannig að mig langar að biðja fólk um að skoða sinn lífsstíl og sjá hvað það geti gert til að breyta þessu, til þess að vinna með þessa þætti, mataræði, hreyfingu, svefn, streitu og jafnvægi í andlegri líðan. Í framhaldinu væri ráð að gera litlar breytingar í átt til betri vegar. Tarnakúltúrinn er ekki alveg að virka í þessu samhengi og tímabært að hugsa um heilsuna til lengri tíma litið með því að gera varanlega breytingu á til hins betra.«
Eins og áður sagði birtist greinin í Morgunblaðinu.