Þrítug ný-sjálensk kona lést úr hjartaáfalli árið 2010 en dauði hennar var talinn tengjast neyslu hennar á Coca-Cola-gosdrykknum. Hún var sögð hafa drukkið tæplega átta lítra af kóki á dag, og innbyrt um leið 4000 hitaeiningar, í tvö ár. Dánardómstjóri hefur nú kveðið upp úrskurð sinn sem segir dauða hennar hafa borið að vegna óhóflegrar neyslu á drykknum.
Fréttastofa Sky News hefur þetta eftir dánardómstjóranum David Crerar sem fór með rannsókn á dauða hennar. „Það bendir flest til þess að of mikil neysla á Coke-i hafi valdið því að hún fékk hjartaáfall.“
Crerar bendir þó á að innihald Coca-Cola-gosdrykksins sé löglegt og að milljónir manna njóti hans á hverjum degi. „Það er ekki hægt að láta Coca-Cola bera ábyrgð á heilsu þeirra neytenda sem neyta vörunnar í óhóflegu magni.“
Hún var sögð drekka Coke um leið og hún fór á fætur á morgnanna og áður en hún fór að sofa á kvöldin. Hún var sögð nærast mjög illa og sagði meinafræðingur sem bar vitni við rannsókn málsins að aðaldánarorsök hennar hafa verið hjartsláttatruflanir sem orsakast vegna óheilbrigðs lífernis.
Búið var að fjarlægja allar tennur hennar sem höfðu skemmst vegna neyslu drykkjarins. Drykkjan hafði ekki einungis áhrif á hana heldur einnig eitt af börnum hennar sem fæddist án tannglerungs.
www.dv.is 13.02.1013