Við mælum með því að þeir sem eru með undirliggjandi sjúkóma eins og hjarta og æðasjúkdóma kynni sér vel efnið með leiðbeiningum frá Landlæknisembættinu á tenglinum hér fyrir neðan. Leiððbeiningunum er beint til þeirra sem eru með undirliggjandi áhættuþætti.
Á blaðamannafundi almannavarna voru kynntar aðgerðir sem nú eru að fara í gang vegna kórónuveiru sem beina sjónum að viðkvæmustu hópunum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þeir smitist. Er þá aðallega um að ræða eldra fólk og þá sem eru með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. Svo virðist sem líkurnar á því að veikjast alvarlega af COVID-19 af völdum kórónuveiru aukist upp úr fimmtugu.
Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef undirliggjandi vandamál eru til staðar, en fólk sem þjáist af eftirfarandi sjúkdómum virðist vera í meiri hættu en aðrir á að veikjast alvarlega: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein. Þá virðast einstaklingar sem reykja vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins. Á þessari stundu er hins vegar óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) auki líkur á alvarlegri kórónuveirusýkingu.
Hér má lesa leiðbeiningarnar í heild sinni