-Auglýsing-

Kviðfitan er hættulegust

Niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar benda til þess, að karlar og konur sem eru of þykk um miðjuna, eigi frekar á hætti að látast fyrir aldur fram en fólk sem er með grannt mitti. Þetta á einnig við um þá sem eru ekki of þungir eða of feitir ef miðað er við hefðbundinn líkamsþyngdarstuðul.

„Þótt fólk hafi ekki þyngst að ráði þá er það hættumerki ef mittið fer að stækka,” sagði Eric Jacobs, hjá bandaríska krabbameinsfélaginu, sem kostaði rannsóknina. „Þá er orðið tímabært að huga að mataræðinu og byrja að hreyfa sig meira.”  

-Auglýsing-

Aðrar rannsóknir hafa einnig tengt of mikla kviðfitu við elliglöp, hjartasjúkdóma, astma og brjóstakrabbamein. 

Fram kemur í rannsókninni, að flestir Bandaríkjamenn, sem eru komnir yfir fimmtugt, eru of magamiklir en talið er að það eigi við um rúman helming karla og um 70% kvenna. Og þetta er vaxandi vandamál því meðalmittismál hefur aukist um 2,5 sentimetra á hverjum áratug  frá sjöunda áratug síðustu aldar. 

- Auglýsing-

AP fréttastofan segir, að hægt sé að áætla hvort maginn sé of mikill með því að bregða málbandi á mittið í kringum naflann (bannað að draga magann að sér). Mittismál karla ætti ekki að vera meira en 100 sentimetrar og kvenna 90 sentimetrar.  

Í nýju rannsókninni, sem birtist í tímaritinu Archives of Internal Medicine á mánudag, voru í fyrsta skipti rannsökuð tengsl milli mittismáls og ævilengdar í þremur þyngdarflokkum: eðlilegum, of þungum og of feitum. Í öllum þessum flokkum var niðurstaðan sú, að of meiri hætta fylgdi stórum maga.  

Rannsökuð voru gögn um yfir 100 þúsund manns, sem fylgst var með á árunum 1997 til 2006. Um 15 þúsund af þeim létust á þessu tímabili.  Niðurstaðan var sú, að þeir sem voru of þykkir um mittið voru mun líklegri en aðrir til að látast af völdum ýmissa sjúkdóma, svo sem öndunarfærasjúkdóma, hjartasjúkdóma og krabbameins.

Jakobs segir, að þegar fólk eldist aukist líkur á að kviðfita safnist upp á sama tíma og vöðvamassinn minnkar. Þess vegna sé ekki víst að fólkið þyngist en líkaminn taki breytingum og það hefur áhrif.  „Málbandið eða beltið kann því að segja aðra sögu en vigtin,” segir Jacobs. 

Fita, sem safnast upp innan á magaveggnum kann að vera skaðlegri en fita sem safnast saman á mjöðmum og lærum. Sumir vísindamenn telja, að þessi fita gefi frá sér prótein og hormón, sem valdi bólgum, trufli framleiðslu insúlíns og auki kólesteról í blóði.  

Samuel Klein, sérfræðingur hjá Washington læknaháskólanum í St. Louis, hefur þó efasemdir um þá kenningu. Hann segir, að það bæti ekki endilega heilsuna að fjarlægja kviðfitu og hugsanlega sé það eitthvað annað, sem valdi bæði því að kviðfita safnast upp og heilsan versnar.

Klein tók ekki þátt í nýju rannsókninni en segir við AP fréttastofuna, að hún sýni ekki fram á hve mikil kviðfita sé hættuleg. Þá segir hann, að fyrrgreind viðmiðun um mittismál eigi ekki við um margt fólk.   

Klein segir, að vilji fólk minnka mittismál sitt séu ráðin þau sömu og þegar fólk vill léttast: að borða færri hitaeiningar og brenna meiru með því að ganga, hjóla eða gera leikfimisæfingar. „Magaæfingar eru tilgangslausar,” segir hann.

www.mbl.is 11.08.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-