„Gáttatif er hjartaaðgerð. Landspítalinn var með ákveðna fjármuni til slíkra aðgerða og hver aðgerð kostaði um milljón. Þeir sem þurftu á þessari aðgerð að halda gátu líka sótt um hana til Tryggingastofnunar og farið utan en það kostaði þá tvær milljónir. Þarna hefur skort hagkvæmni vegna þess að þrír aðilar sömdu um þjónustuna, samninganefnd heilbrigðisráðherra, sjúkratryggingahluti Tryggingastofnunar og heilbrigðisráðuneytið. Þegar yfirsýn er á einum stað, hjá Sjúkratryggingastofnun, sjá menn að hægt er að gera helmingi fleiri aðgerðir á Landspítalanum í stað þess að senda fólkið til útlanda. Þannig er markvisst verið að veita eins mikla og góða þjónustu og mögulegt er fyrir það fjármagn sem við höfum úr að moða hverju sinni.“
Einkarekstur ekki markmiðið
Þú segist ekki vera að einkavæða en hvað um einkarekstur?
„Lög um sjúkratryggingar koma einkavæðingu ekkert við. Menn eru alltaf að rugla saman hugtökum, stundum viljandi, stundum óviljandi. Einkavæðing er eitt, einkarekstur er annað. Ef menn eru á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni og ef það væri mín skoðun þyrfti ég núna að hreinsa út 30 prósent af heilbrigðisþjónustunni. Einkarekstur hefur alltaf verið mjög áberandi í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og er eitt af því sem hefur gert heilbrigðisþjónustu góða á Íslandi. Einkarekstur er hins vegar ekki markmiðið.
Í raun mætti gagnrýna mig fyrir að hafa ríkisvætt. Enginn heilbrigðisráðherra hefur komið tannréttingum fyrir með þeim hætti sem ég gerði á Landspítalanum. Ég hef eflt Heyrnar- og talmeinastöðina og samdi við spítalann á Akureyri um bæklunaraðgerðir. Þetta mætti kalla ríkisvæðingu. Er markmið mitt að ríkisvæða heilbrigðisþjónustuna? Nei! Markmið mitt er að sjá til þess að fá eins mikla þjónustu og gæði og mögulegt er fyrir það fé sem ég hef. Ég nota þær aðferðir sem þarf til að láta það gerast.
Það er augljóst að við höfum náð árangri. Við höfum fengið hjartalækna á samninga, við höfum náð að stytta biðlista eftir hjartaaðgerðum og augasteinsaðgerðum og samheitalyf hafa lækkað. Við höfum samið við sjálfstæða sálfræðinga og í gegnum þingið fóru lög um tæknifrjóvgun fyrir einhleypar konur. Nú eru fjölbreyttari úrræði í sambandi við heimahjúkrun og skammtímainnlagnir og endurhæfingu sem þýðir að öldrunarsjúklingar fara fyrr út af sjúkrahúsum og þar með styttast biðlistar. Við erum að styrkja Landspítalann sem bráðasjúkrahús. Árum saman hafa menn talað um útskriftarvanda á LSH. Hann er að engu orðinn nú af því það var tekið á málinu. Þá má ekki gleyma þeim árangri sem náðst hefur í starfsemi Barna- og unglingageðdeildar Landspítala á því eina ári sem nú er liðið frá því að ég setti fram sérstaka aðgerðaáætlun sem síðan hefur verið unnið eftir.
Á einu ári höfum við náð miklum árangri og mun meiri árangri en ég gat búist við.“
Eigum að forðast kreddur
Ertu talsmaður þess að fólk hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag?
„Ég held að allir Íslendingar séu þeirrar skoðunar að hér eigi að vera heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga. Samkvæmt því vinn ég og minn flokkur. Þetta er eilífðarverkefni. Það mun aldrei koma sá dagur að nokkur heilbrigðisráðherra segist hróðugur hafa leyst öll vandamál og ekki geta gert betur.
Það skiptir máli að skoða það sem aðrir hafa gert, læra af þeim og forðast kreddur, eins og til dæmis kreddur um rekstrarform. Okkur veitir ekkert af að vera opin fyrir fjölbreyttum úrræðum og fjölbreyttum rekstrarformum ef við ætlum að vera með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga. Það er alveg ljóst að það verður aukin eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna þess að þjóðin er að eldast. Það er verkefni og tækifæri en ekki vandamál. Þú spyrð ekki um rekstrarform – þú spyrð um það hvernig þú getur þjónað fólkinu best.“
Á fólk að geta keypt sig fram hjá biðröðum í heilbrigðiskerfinu?
„Ef við stöndum okkur í því að vera með nægt framboð af heilbrigðisþjónustu, ef við vinnum vel, þarf ekki að koma til þess að menn séu að velta slíkum hlutum fyrir sér. En ef við höfum ekki nægt framboð og fólk þarf að bíða mjög lengi eftir þjónustu reynir fólk að bjarga málunum með einhverjum öðrum hætti. Fólk getur nú þegar farið til útlanda og það verður ekki bannað en ef okkur tekst það sem við ætlum okkur, að vera með nægt framboð, verðum við með þjónustu sem allir Íslendingar nýta sér vegna þess að það væri fráleitt fyrir þá að gera eitthvað annað.“
Ekki í Truman Show
Laxveiðiferð sem þú fórst í hefur verið nokkuð í umræðunni. Voru ekki mistök að þiggja boð í laxveiði í nafni stórfyrirtækis eins og Baugs?
„Ef ég hefði þegið boð frá stórfyrirtæki þá hefðu það verið mistök. En það gerði ég ekki. Ég setti mér það viðmið fyrir tuttugu árum, þegar ég byrjaði í stjórnmálum, að þiggja ekki boðsferðir frá fyrirtækjum, hvorki stórum né smáum, og hef staðið við það. Í þessu tilviki bauð vinur minn mér í veiði og greiddi fyrir veiðileyfið. Ég endurgreiddi honum síðan og sagði við hann að ég vildi hafa þá reglu að borga alltaf fyrir mínar veiðiferðir sjálfur.“
Þú vilt ekki sýna kvittun um að þú hafir borgað ferðina. Af hverju?
„Ég hugsa þetta í prinsippum. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi aldrei þegið neitt af vinum mínum. Ég þigg matarboð og þvíumlíkt og svo sannarlega veiti ég vinum mínum sambærilega hluti. Ég vona að slíkt verði ekki gert tortryggilegt, þá erum við komin í svolítið sérkennilega stöðu. Ég braut ekki reglur á neinn hátt en svo eru einhverjir að fara fram á að ég opni heimabankann minn. Hvað verður þá farið fram á næst? Einhvers staðar verður maður að draga mörkin. Ég er stjórnmálamaður og opinber persóna en ég er ekki tilbúinn að verða einhver Jim Carrey í Truman Show.“
Var í þessari ferð talað um orkumál og hugsanlega sameiningu REI og Geysir Green, eins og látið hefur verið liggja að?
„Í þessari ferð voru gamlir veiðifélagar, karlar og konur, sem voru að veiða saman og hafa veitt saman í áratugi. Þarna heyrði ég alls kyns veiðisögur. Þarna var ekki talað um viðskipti. Annars er kaldhæðnin í þessu sú að ég hef eiginlega engan áhuga á laxveiði. Þetta er held ég eina laxveiðiferðin sem ég hef farið í fyrir utan eina í Elliðaárnar sem borgarfulltrúi.“
Ögmundur Jónasson setti mynd af þér með Gaddafi Líbíuforseta á heimasíðu sína til að leggja áherslu á þá skoðun sína að þú sért á rangri braut með Sjúkratryggingalögin. Tekurðu gagnrýni nærri þér?
„Málefnaleg gagnrýni er eðlilegasti hlutur í heimi. Stjórnmálamenn sem kveinka sér undan gagnrýni andstæðinga sinna eiga að hasla sér völl á öðrum vettvangi. Þessi framsetning Ögmundar dæmir sig hins vegar sjálf. Ef Ögmundur Jónasson vill líkja samferðamönnum sínum við fjöldamorðingja þá er það hans mál.“
Góður andi í ríkisstjórninni
Hvernig er ríkisstjórnarsamstarfið, er ekki smá pirringur milli ríkisstjórnarflokkanna?
„Það er mjög gott að vinna í ríkisstjórninni. Að stærstum hluta hefur samstarfið gengið mjög vel en það liggur ljóst fyrir að það hefur annað yfirbragð en í síðustu ríkisstjórn.“
Finnst þér Samfylkingin stundum of yfirlýsingaglöð?
„Ég held að almenna reglan sé sú að betra er að segja minna og gera meira. Ef menn eru ósáttir við eitthvað er betra að setjast yfir málið fremur en ræða það í fjölmiðlum. Menn eru misjafnlega fljótir að átta sig þessu, jafnvel þótt þeir hafi verið lengi á vettvangi stjórnmálanna, en gamanlaust – traust byggist á því að finna lausnir og við gerum það í þessu samstarfi. Það ríkir góður andi í þessari ríkisstjórn.“
Kjaradeila ljósmæðra er í hnút. Hvað finnst þér sem heilbrigðisráðherra um málið?
„Ég hef miklar áhyggjur af þessari kjaradeilu og mögulegum afleiðingum hennar. Ég geri þá kröfu til samningsaðila að þeir nái niðurstöðu áður en til allsherjarverkfalls kemur. Það er of mikið í húfi.“
Finnst þér rétt að fjármálaráðherra stefni Ljósmæðrafélaginu?
„Báðir aðilar, kannski sérstaklega fjármálaráðherra, eru í mjög erfiðri stöðu núna. Á okkur hinum hvílir líka mikil ábyrgð, sérstaklega í þessari viðkvæmu stöðu og það er mjög mikilvægt að við segjum ekkert sem getur gert viðsemjendum erfiðara fyrir. Þessi kjaradeila verður leyst við samningaborðið en ekki í fjölmiðlum.“
Hefurðu samúð með málstað ljósmæðra?
„Það er erfitt fyrir mig að gera upp á milli stétta í heilbrigðisþjónustunni og ég mun ekki gera það. Svo sannarlega vitum við öll að ljósmæður vinna ákaflega mikilvæg störf. Ég vonast til að farsæl lausn náist í þeirra kjaramál sem fyrst. En ég er algjörlega meðvitaður um það að lausnin fæst við samningaborðið og ummæli mín og annarra ráðherra skipta litlu máli þar um.“
Þrífst á krefjandi verkefnum
Menn velta því fyrir sér hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Þú hlýtur að hafa áhuga á starfinu?
„Ég er ekkert að hugsa um það. Við erum með mjög góðan og öflugan formann og forsætisráðherra í Geir Haarde og hann verður formaður í mjög langan tíma. Það sýnir sig best núna þegar gefur á að það skiptir máli að hafa traustan og öflugan forystumann sem fer ekki á taugum af minnsta tilefni. Það er ágætt að bera saman yfirlýsingar ýmissa stjórnmálaleiðtoga núna og meta hvað þeir hefðu gert í þeirri stöðu sem komin er upp. Það er augljóst að þeir hefðu allir farið á taugum fyrir löngu með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.“
Konan þín Ágústa Johnson er framkvæmdastjóri. Þið eruð því bæði í annasömum störfum. Er einhver tími eftir fyrir börnin ykkar fjögur?
„Þetta er ekkert öðruvísi hjá okkur en öðrum, alls ekki auðvelt. Tíminn líður gríðarlega hratt og maður hefur bara ákveðinn tíma með börnunum og það er mikilvægt að nýta hann vel. Pabbi segir að maður hafi börnin að láni til fimmtán ára aldurs og svo verði maður bara að vona það besta. Ég held að það sé nokkuð til í því. Maður verður að ala börn upp í að verða sjálfstæðir einstaklingar og getur ekki kvartað þegar kemur að því að þau stigi slík skref. Mér sýnist hafa gengið ágætlega hjá okkur að samræna fjölskyldulíf og starf en það hefst ekki án fyrirhafnar.“
Ráðherrastarf er örugglega annasamt og slítandi, hvað gerirðu til að halda hugarorku og einbeitingu?
„Ég hef óskaplega gaman af að vinna. Þetta ráðherrastarf hefur verið gríðarleg vinna og það er kúnst að kúpla sig frá því. En ef maður nær ekki að hvíla sig er hætt við að maður verði eins og kerti sem brennur í báða enda. Ég reyni að hreyfa mig og fer í reglulega í líkamsræktarstöð og það skiptir máli. Svo fer ég oft í sund með tvíburunum og það er mjög góð leið til að hafa áhyggjur af einhverju öðru en rekstri heilbrigðisstofnana. Við Ágústa gætum þess að eiga stundir þar sem við erum bara tvö í helgarferðum innanlands eða utanlands. En vinnan tekur mestan hluta tíma míns. Og þá skiptir samstarfsfólkið ekki litlu máli. Í heilbrigðisráðuneytinu er ég umkringdur góðu og öflugu fagfólki og það er ekki verra að þessi hópur er mjög skemmtilegur. Starf mitt nú er án vafa mest krefjandi verkefni sem ég hef tekið að mér. Og ég er svo heppinn að þrífast á krefjandi verkefnum.“
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is 13.09.2008