Nú eru rúmar tvær vikur frá því læknir hætti að fylgja neyðarbíl Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Töluverð umræða hefur verið um þessa ákvörðun Landsspítalans og sýnist sitt hverjum. Að margra mati hefur þó vantað nokkuð upp á að skýra hvað bráðatæknar gera.
Bráðatæknar eru með margra ára reynslu af sjúkraflutningum. Eftir sértækt bráðatækninám í Bandaríkjunum geta þeir gert nánast allt sem hægt er að gera fyrir sjúklinga utan sjúkrahúss. Starf þeirra felst í því að koma sjúklingum fljótt og örugglega á sjúkrahús og veita þeim á leiðinni þá þjónustu sem þarf.
Fyrir breytingu var einn læknir á vakt hverju sinni og fylgdi hann neyðarbílnum. Yfirleitt var um að ræða unglækna, nýkomna úr námi sem voru á leið í sérfræðinám. Þeir unnu mislengi við sjúkraflutninga, allt frá nokkrum vöktum upp í tvö ár.
Bráðatæknar og sjúkraliðar gera flestir starfið að lífsstarfi. Þeir hafa margra ára reynslu af því að sinna sjúklingum á vettvangi við hvaða aðstæður sem er. Þeir eru á hverri stöð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, en þær eru þrjár.
Á hverju ári eru einn til þrír sjúkraliðar sendir í ársnám fyrir bráðatækna til Pittsburg í Pennsilvaníu í Bandaríkjunum. Þar hljóta þeir bæði bóknám og verknám, stundum við aðstæður sem afar sjaldan skapast hér á landi.
Vísir fylgdi sjúkraflutningamönnum og bráðatæknum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu eftir einn dag. Það var mat okkar að almenningi væri ekki síður vel borgið í höndum bráðatækna eins og lækna.
www.visir.is 30.01.2008