Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar hefur bæði skarpa og skýra sýn á veruleika íslensks heilbrigðiskerfis. Nú er staðan þannig að stjórnendur virðast ekki njóta óskoraðs trausts og nánast daglega eru fluttar fréttir af hópum innan spítalans þar sem lýst er áhyggjum yfir stöðunni.
Kári skrifar beinskyttan pistil í Morgunblaðið í dag þar sem hann greinir ástandið og hvað hefur gerst innan kerfisins frá hruni.
Það er ekki fögur sjón sem blasir við Kára en hluti af pistli hans fylgir hér fyrir neðan:
Frjálshyggjumennirnir vilja að samfélagið láti menn að mestu eina um vesöld sína og félagshyggjumennirnir að samfélagið haldi í höndina á okkur frá vöggu til grafar.
Spurningin sem brennur á okkur er hvenær samfélagið eigi að rétta hjálparhönd og það er um svarið við henni sem þessar fylkingar deila. Menn eru þó yfirleitt (en ekki alltaf) sammála um að samfélagið eigi að sjá til þess að þeir sem eru sjúkir og slasaðir fái aðhlynningu og ef samfélagið geri það ekki standi það ekki undir nafni. Og það er hér sem hnífurinn stendur í kúnni.
Eftir fjögur ár af fyrstu hreinræktuðu félagshyggjuríkisstjórninni í sögu lýðveldisins er búið að hola að innan heilbrigðiskerfið þannig að það getur ekki sinnt hlutverki sínu og menn og konur sem hefðu átt að lifa lengur eru líklega farin að deyja þess vegna. Samfélagið stendur ekki lengur undir nafni og er að breytast í eitthvað allt annað sem ég kann ekki að nefna.
Á meðan heilbrigðiskerfið brann
Næsta spurning er þá hvort við höfum verið svo fátæk að fráfarandi ríkisstjórn hefði ekki getað spornað gegn þessu ef hún hefði haft til þess vilja? Svarið við henni felst í þeim verkum sem ríkisstjórnin réðst í á sama tíma og hún horfði á heilbrigðiskerfið brenna:
1. Hún lauk við Hörpuna hina fögru og eyddi í það ótöldum milljörðum. Nú sitjum við líka uppi með kostnaðinn af rekstrinum, sem er töluvert meiri en menn óraði fyrir og það er hvergi minnst á nauðsyn þess að spara í honum. Þegar menn gagnrýndu þá ákvörðun að ljúka við Hörpuna áður en ráðist var í framkvæmdina og lögðu til að peningum sem færu í hana yrði frekar varið til heilbrigðis- og menntamála var þeim svarað því til að peningar sem færu í svona byggingu væru einhvern vegin ekki nýtanlegir til rekstrar velferðarkerfisins? Það hefði mátt tækjumvæða allt heilbrigðiskerfið upp á nýtt og reka það af fyrirhrunsárakrafti um aldur og ævi fyrir það fé sem fór í að ljúka byggingu Hörpunnar og fer nú í að reka hana.
2. Hún reisti 700 fermetra hús í Vatnajökulsþjóðgarði.
3. Hún reisti 3.000 fermetra hús yfir Náttúrufræðistofnun uppi í Heiðmörk.
4. Hún reisti menningarmiðstöðina Hof á Akureyri.
5. Hún stóð fyrir því að byrjað var að bora göng í gegnum Vaðlaheiðina sem eiga að stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 14 mínútur. Kostnaðurinn við göngin myndi nægja til þess að endurtækjumvæða Landspítalann og reisa hann til fyrri vegs.
6. Hún byrjaði að reisa hús yfir stofnun norrænna fræða við Háskóla Íslands.
7. Hún veitti þrjá og hálfan milljarð til þess að hlúa að uppbyggingu á kísilverksmiðju á Bakka sem á litla möguleika á því að standa undir sér.
Þessi listi samrýmist því engan veginn að annars vegar væri ekki til fé til þess að hlúa að heilbrigðiskerfinu og að hins vegar væri við völd ríkisstjórn staðráðin í því að láta velferðarkerfið ekki gjalda kreppunnar. Þetta lítur miklu frekar út eins og að fráfarandi ríkisstjórn hafi metið það sem svo að það væri mikilvægara að reisa austurþýsku alþýðuhallirnar sem eru taldar upp á listanum hér að ofan en að halda úti almennilegu heilbrigðiskerfi.
Ekki varð þetta til þess að fjölga störfum í landinu vegna þess að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu varð til þess að líklega glötuðust á annað þúsund langtímastörf. Nú finnst mér líklegt að ráðherra fráfarandi ríkisstjórnar hrylli við þeirri forgangsröðun sem endurspeglast í þessu vegna þess að þeir eru undantekningarlaust hjartahlýtt fólk sem þykir vænt um sína þjóð. Það er hins vegar ljóst að í moðreyknum sem þyrlaðist upp í kringum eftirleik hrunsins villtist þetta góða fólk af leið og endaði út í mýri.
Banvænn niðurskurður?
Afleiðingin af þessu er sú að nú sitjum við uppi með heilbrigðiskerfi sem getur ekki sinnt hlutverki sínu og ég held því fram að fólk sé farið að deyja fyrr en ella út af því einu saman. Ef sú kenning mín reynist rétt, þá hafa ákvarðanir um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og að veita frekar fé til þess að reisa og reka Hörpur og Hof og bora í gegnum fjöll valdið dauða fólks. Það vekur ekki spurninguna um það hvenær maður drepi mann heldur hvenær ríkisstjórn drepi mann og síðan hvernig maður kalli ríkisstjórn til ábyrgðar fyrir að drepa mann.
Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af svarinu við seinni spurningunni vegna þess að þegar kom að kosningum í vor þá vildi enginn fráfarandi ríkisstjórn, allir hæddu hana og það var ekkert sem veitti henni huggun í sorginni. Ég hef hins vegar þungar áhyggjur af því hvort núverandi ríkisstjórn sem er að skakklappast af stað ætli sér að gera eitthvað til þess að bæta heilbrigðiskerfið. Mér virðist eins og hún sé að reyna að komast hjá því vegna þess að það kostar mikla peninga og henni er greinilega mikilvægara að lækka skatta á mönnum eins og mér en að hlúa vel að sjúkum og særðum.
Og núverandi ríkisstjórn getur ekki falið sig á bakvið moðreykinn frá hruninu eða að hún viti ekki hvernig ástandið sé. Ég vil hér með deila með núverandi ráðherrum, persónulega og prívat, þeirri trú minni að ef þeir skipti ekki um skoðun í þessu máli í grænum hvelli verði seta þeirra í ríkisstjórn ekki til fjögurra ára. Það er nefnilega þannig að þegar aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnar leiðir til þess að fólk lætur lífið á Íslandi er líklegt að þjóðin láti sér ekki nægja að berja saman pottahlemmum.
Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Pistilinn er hægt að lesa í heild sinni í Morgunblaðinu.