Eftir Guðmund Þorgeirsson og Þórð Harðarson: “Engin leið er að veita sjúklingum ásættanlega þjónustu í þessum húsakosti.”
Vitanlega voru um það skiptar skoðanir meðal almennings og starfsmanna spítalanna, hvort sameina ætti sjúkrahúsin í Reykjavík árið 2000. En meginröksemdin fyrir sameiningunni var, að nú yrði stofnað til nútímalegs háskólasjúkrahúss, sem stæði undir nafni á alþjóðavísu, hvað varðaði stærð, fjölbreytilega þjónustu og vísindalegan grundvöll. Það var þessi sýn, sem olli því að langflestir læknar snerust til fylgis við sameininguna. Starfsmenn spítalanna og allur almenningur skildi líka þörfina fyrir nýja spítalabyggingu, sem leysti af hólmi úreltar og óhagkvæmar byggingar, og aðbúnaður sjúklinga yrði í samræmi við kröfur tímans og aðstæður í landinu.
Hvað er háskólaspítali – þurfum við háskólasjúkrahús?
Háskólaspítali veitir fjölbreytta þjónustu í flestöllum viðurkenndum sérgreinum læknisfræðinnar, en leggur jafnframt áherslu á kennslu, rannsóknir og þróun. Þjónusta við sjúklinga, kennsla og rannsóknir eru þannig samþætt í starfi háskólasjúkrahúss. Slík samþætting hefur í för með sér markvissa öflun, varðveislu og miðlun þekkingar, sem leiðir til bætts árangurs í meðferð sjúklinga. Læknar og aðrir starfsmenn Landspítalans eiga stóran hlut í árlegu vísindaframlagi Háskóla Íslands, ef það er metið á alþjóðlega vísu með fjölda og gæðum birtra greina á viðurkenndum vettvangi. Háskóli Íslands kemst ekki í röð 100 fremstu háskóla heims nema með atbeina heilbrigðisgreinanna. Mörg öflug fyrirtæki hafa sprottið upp úr frjóu sambýli spítala og háskóla og veita þúsundum Íslendinga atvinnu. Vörur tengdar heilbrigðisgreinum eru langstærsti hluti útflutnings Íslendinga á hátæknivarningi.
Í hinu íslenska fámenni er augljós nauðsyn að sameina alla krafta og þekkingu. Á þeim forsendum ákváðu framsýnir leiðtogar þjóðarinnar að byggja upp nýtt og nútímalegt háskólasjúkrahús á sameiginlegri lóð Landspítalans og Háskóla Íslands við Hringbraut.
Rökin fyrir staðarvalinu voru eftirfarandi:
1. Staðsetning við Hringbraut var langódýrasti kosturinn vegna alls þess nýtilega húsnæðis, sem þar er fyrir.
2. Tengsl Landspítala við Háskóla Íslands eru mikilvæg og munu vaxa með nábýli.
3. Við Hringbraut var nægilegt rými til uppbyggingar. Víða erlendis, t.d. í Osló og Stokkhólmi eru nýir spítalar byggðir þéttar og hærra á flatareiningu en fyrirhugað er við Hringbraut.
4. Margir töldu æskilegt að efla miðbæjarlíf.
Er Landspítalinn of stór?
Landspítalinn er mjög fyrirferðarmikill í íslensku heilbrigðiskerfi. En íslenskt heilbrigðiskerfi er örsmátt á mælikvarða nágrannaþjóðanna. Sem háskólaspítali er Landspítalinn því lítill. Margar sérgreinar eru tæpast nógu stórar til að marktækur árangur náist í fræðastarfi, þótt góð þjónusta sé veitt á flestöllum sviðum. Það væri glapræði að sundra sérfræðikröftum íslenskra heilbrigðisstarfsmanna og sólunda fjármunum almennings með því að skipta spítalanum á ný í öreiningar. Sem kennslustofnun annast Landspítalinn fræðslu og þjálfun um 1100 nemenda á ári og er þannig ein stærsta menntastofnun landsins. Vegna hratt vaxandi þekkingar og aukinnar sérhæfingar í heilbrigðisgreinum hafa háskólasjúkrahús víðast farið stækkandi. Landspítalinn er ekki of stór.
Markmið með nýbyggingu Landspítala
Höfuðmarkmið með nýbyggingu er að auka gæði og öryggi þjónustunnar. Starfsemi spítalans er nú á 16 stöðum á höfuðborgarsvæðinu í 100 húsum. Mörg þeirra eru viðbyggingar við eldri hús eða bráðabirgðahús, sem hafa staðið miklu lengur en í upphafi var ætlað. Meginstarfsemin bæði við Hringbraut og í Fossvogi er í húsum, sem hönnuð voru fyrir meira en hálfri öld fyrir sjúkrahússtarfsemi, sem var gjörólík þeirri, sem nú er stunduð svo að ekki sé minnst á starfsemi, sem er fyrirsjáanleg í næstu framtíð.
Engin leið er að veita sjúklingum ásættanlega þjónustu í þessum húsakosti. Í annan stað er í hönnunarforsendum hins nýja sjúkrahúss mælt svo fyrir, að hagsmunir sjúklingsins skuli ávallt í fyrirrúmi. Í því felst m. a. að sjúkrastofur skuli vera einbýli, umhverfi hlýlegt, góð aðstaða fyrir aðstandendur og greiður aðgangur að upplýsingum. Í þriðja lagi skal spítalinn vera góður vinnustaður, sem dregur að starfsfólk. Tilfinnanlegur skortur er á faglærðum og ófaglærðum starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu hér á landi eins og víðast í vestrænum ríkjum. Án verulegra umbóta í starfsumhverfi á spítalanum er ekki líklegt að úr rætist á næstunni. Fjórða markmiðið er hagræðing og aukin skilvirkni. Reynsla erlendis sýnir, að spara má 8-10% árlegs rekstrarkostnaðar með því að flytja starfsemi úr gömlu húsnæði í húsakynni, sem hönnuð eru með gagnreyndri þekkingu nútímans. Þar að auki lýkur sameiningarferli sjúkrahúsanna í Reykjavík með nýbyggingunni – eiginlegu háskólasjúkrahúsi. Í því felst augljós viðbótarhagræðing. Ætla má, að af 33 milljarða rekstri gæti árlegur sparnaður numið a.m.k. 3 milljörðum. Þetta skýrist einkum af bættum starfsaðstæðum og aukinni sjálfvirkni. Mestu varðar þó, að öryggi sjúklinga stóreykst. Bandaríska eftirlitsstofnunin Institute of Medicine hefur sýnt að við nútímalegar aðstæður fækkar mistökum við lyfjagjafir um 30% og spítalasýkingum um 11%. Upplýsingaöflun og varðveisla verður öruggari og forsendur einkalífs eru virtar með einbýli sjúklinga.
Á undanförnum mánuðum hafa fjölmargir starfsmenn spítalans unnið með arkitektum og verkfræðingum danska fyrirtækisins C.F. Möller, sem hlutskarpast varð í samkeppninni im skipulagshönnun sjúkrahússins. Í þeirri samvinnu hafa þróast snjallar og framsæknar lausnir, sem þjóna vel framangreindum markmiðum.
Hvað er framundan?
Það er til mikils að vinna, ef hraðað verður svo sem unnt er þeim nýbyggingaráformum, sem kynnt hafa verið. Það fer saman, að almenningur og starfsmenn bíða óþreyjufullir eftir kynningu á næstu áföngum uppbyggingar og að aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir auknum opinberum framkvæmdum. Hagkvæmur, alþjóðlega samkeppnisfær háskólaspítali, sem er hornsteinn heilbrigðisþjónustu í landsinu, leysir af hólmi úreltar og óhagkvæmar byggingar, býr sjúklingum stórbættar aðstæður, bætta þjónustu og aukið öryggi er framtíðarsýn, sem allir landsmenn geta sameinast um.
Höfundar eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknar á Landspítala.
Morgunblaðið 16.02.2008