fbpx
-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað 2022

Hér afhentir Valur Rafn Markaðsstjóri TRI undirrituðum Blíðfinn.

Þá rúllum við af stað með hjólað fyrir hjartað 2022 í samvinnu við hjólreiðabúðina TRI, Garminbúðina og 66 norður. Án þessara aðila væri þetta einfaldlega ekki framkvæmanlegt.

Tilgangurinn með þessu brölti er einfaldur. Við viljum vekja athygli fólks á rafmagnshjólreiðum og þar sem undirritaður er bæði hjartabilaður og með gangráð/bjargráð auk annarra kvilla er tilvalið að nota hann sem tilraunadýr.

Þetta verður fjórða sumarið sem við rúllum þessu verkefni áfram en fyrsta sumarið fór aðallega í það að finna út hvort ég gæti nú hjólað yfir höfuð. Þess má geta að ef ekki væri fyrir rafhjólin hefði þetta ekki verið mögulegt. Því þar skilur virkilega á milli og ekki síst fyrir okkur sem erum með skerðingu á þreki eða vandamál frá stoðkerfi. Síðan þá er ég búinn að hjóla um 5.000 km á rafhjóli. Þetta hefur fært mér ómælda gleði og ánægju auk þess sem ég hef haft tækifæri til að sjá borgina og landið út frá öðrum sjónarhóli.

Þau tímamót áttu sér svo stað um daginn að ég fékk nýtt rafhjól til verksins og var það sérlega skemmtilegt. Við Léttfeti höfðum fylgst að í um 20 mánuði og hann hafði staðið sig sérlega vel og aldrei borið skugga á okkar samvinnu og svo bilaði hann aldrei.

Við tók annað Cube rafhjól. Cube Touring Hybrid One með 500 W rafhlöðu. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég settist í hnakkinn var hvað nýja hjólið var mjúkt og rann ljúflega um stíga og stræti. Hann fékk því nafnið Blíðfinnur og ber það nafn svo sannarlega vel. Eða eins og Þorvaldur Þorsteinsson höfundur bókanna um Blíðfinn skrifaði á sínum tíma „ Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó.“

Unirritaður glaðbeittur í hjólatúr með Bóbó.

Við Bóbó erum búnir að hjóla um borg og bý síðan við hittumst þann 11 apríl og það eru búnar að vera stórkostlegar ferðir. Fyrir þá sem ekki hafa fullt þrek eru rafhjól stórkostleg og þó þú hafir fullt þrek eru rafhjólin dásemdin ein.

Eins og áður hefur komið fram er ég hjartabilaður og með gangráð/bjargráð og af þeim sökum var þetta mikil áskorun. En þetta hefur gengið vel. Auk þess þá hafa ýmsir stoðkerfiskvillar hrjáð mig og það er skemmst frá því að segja að þeir trufla mig ekki neitt þegar ég sit á hjólinu. Ég er hins vegar alltaf eitthvað verkjaður þegar ég geng og hjólreiðar á rafhjóli eru því fullkomin leið til heilsubótar og til að njóta útivistar.

- Auglýsing-

Að vanda ætla ég að skrifa hér á hjartalif.is um þetta brölt mitt og hvet lesendur auk þess til að lesa eldri pistla um hjólað fyrir hjartað en þeir standa vel fyrir sínu.

Björn Ófeigs.           

Auglýsing
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-