Hjartagátt lokað í mánuð

Á vef Landspítalans segir að álag sé svo mikið á bráðmóttöku í dag að fólki sé forgangsraðað eftir bráðleika og jafnvel vísað á heilsugæslu eða læknavakt. Í dag segir svo Morgunblaðið frá því að Hjartagátt Landspítalans við Hringbraut verði lokuð í mánuð í sumar vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

Það dylst engum að bráðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu er í vanda og hefur verið það í langan tíma. Hjartagáttin hefur verið mikilvægt haldreipi fyrir okkur hjartafólk og ég tala nú ekki um eftir að þar fór að vera opið 24 tíma á sólahring sjö daga vikunnar. Það er því líklegt að sumarið verði mörgum erfitt meðan á lokun Hjartagáttar stendur.

Samkvæmt því sem fram kemur í Mogganum er meira dregið úr starfseminni í sumar en áður og lokanirnar dreifast á lengri tíma. Sumarlokanir deilda Landspítalans hefjast um miðjan júní og standa út ágústmánuð. Minnsta starfsemin verður í lok júlí og byrjun ágúst, það er að segja vikurnar í kringum verslunarmannahelgina, að því er fram kemur í umfjöllun um minnkun umsvifa á spítalanum í Morgunblaðinu í dag.

Auk lokana verður einnig dregið úr skipulögðum aðgerðum, eins og venjulega á þessum tíma. Það er til þess að gefa starfsfólki spítalans kost á því að fara í frí auk þess sem sjúklingar vilja síður fara í aðgerðir á þessum tíma árs.

Björn