Ástu Möller, formanni heilbrigðisnefndar, þótti undarlegt af Valgerði að tala eins og ákveðnir stjórnmálaflokkar gætu framfylgt löggjöf og aðrir ekki. „Það verður að gera lög þannig úr garði að þau standist tímans tönn og geti fylgt þeim ráðherrum og flokkum sem eru á hverjum tíma,“ sagði Ásta.
Dulbúin pólitík
Framsóknarflokkurinn ætlar að sitja hjá við atkvæðagreiðslu og Valgerður áréttaði að heilbrigðisþjónusta gæti aldrei orðið í formi hefðbundinna viðskipta þar sem hagnaðarvon ræður för.
Frjálslyndi flokkurinn styður frumvarpið með þeim fyrirvara að Sjúkratryggingastofnun þenjist ekki um og of út en Vinstri græn standa harðlega gegn því. „Með því að búa til innkaupastofnun er um leið búið til tæki til að auðvelda einkavæðingu og kollvarpa til frambúðar því félagslega heilbrigðiskerfi sem Íslendingar hafa notið um árabil,“ sagði Þuríður Backman og átaldi meirihlutann fyrir að dulbúa pólitíkina að baki sem tæknileg atriði.
Þingmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks stóðu hins vegar þétt að baki frumvarpinu og áréttuðu að aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu yrði jafnt, enginn gæti keypt sig fram fyrir röðina. „Hvar stendur í þessu ágæta frumvarpi að verið sé að einkavæða heilbrigðiskerfið?“ spurði Ólöf Nordal og þótti málflutningur VG litast af ótta sem ætti ekki við rök að styðjast.
Morgunblaðið 10.09.2008