Á að bjóða öllum yfir 55 ára aldri fyrirbyggjandi pillu, svokallaða polypillu með margvíslega verkun, til að fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma? Ásta Sóley Sigurðardóttir segir þetta eina af spurningunum sem settar voru fram á þingi norrænna heimilislækna sem fram fór fyrir skömmu.
Jan Håkanson, heimilislæknir frá Svíþjóð, var annar leiðenda á málþingi um áhættu og forvarnir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, “Cardiovascular disease Prevention – Carrots or Pills for all?”
“Kannski er það framtíðin,” segir Jan, en bætir við: “Eru hjarta- og æðasjúkdómar virkilega að verða algengari dánarorsök eins og fjölmiðlar segja okkur?” Svarið er samkvæmt Anders Hernborg, sem er einnig heimilislæknir og hinn leiðandi málþingsins, neikvætt. Hann segir rannsóknir sýna að dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma fækkar ört í flestum löndum en dauðsföll vegna slysa og krabbameins standi í stað.
Jan segist velta fyrir sér hvaðan þessi þráláti orðrómur um fleiri dauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma komi, því að rannsóknir sýni hið andstæða.
“Neikvæðu hliðarnar eru að aukaverkanir eru ýmsar af polypillunni en þær fara þó eftir samsetningu hennar,” segir Jan og bætir við að aspirín, sem hafi verið notað í pillurnar m.a., ætti aldrei að gefa fólki sem forvörn sem er í fyrsta forvarnarhópi, þ.e. fólki sem aldrei hefur fengið hjartaáfall eða önnur hjarta- og æðasjúkdómstilfelli.
Jan segir að gefin séu út viðmið í flestum löndum þar sem tekið sé á því hvar eigi að draga mörkin, þ.e. hverjum eigi að ráðleggja lyfjameðferð og hverjir þurfi aðeins heilbrigðari lífsstíl.
Í Svíþjóð eru viðmiðin ofar en í Evrópu, þ.e. sænskir læknar ráðleggja lyfjameðferð sjaldnar en evrópsku viðmiðin segja til um, en Jan segir Bandaríkin vera sér á parti þar sem fólk þurfi ekki að vera í verulegum áhættuhópi þar í landi til þess að lyfjameðferð sé ráðlögð.
Reykingar verstar
Aðalefni málþingins segir Jan vera hvað heimilislæknar ráðleggi fólki að gera til að minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og hvernig þeir meta í hvaða áhættuhópi fólk sé. Leggur hann mikla áherslu á skaðsemi reykinga og segir að fjórum árum eftir að fólk hætti sé það aftur komið í sama áhættuhóp fyrir hjarta- og æðasjúkdóma og fólk sem aldrei hefur reykt. Einnig sagði hann minna salt, meira grænmeti, fisk og ávexti hafa úrslitaáhrif sem forvörn ásamt reglulegri hreyfingu.
Jan segir að nú reyni læknar heldur að líta á heildina, fremur en að meðhöndla eitt einkenni í einu, og skoða samspil sjúkdóma eða ástands og reyna að miða meðferð við heildarmyndina.
Morgunblaðið 30.06.2007