Gunnar Sigurðsson skrifar í tilefni af alþjóðlegum blóðþrýstingsdegi sem er í dag: “Full ástæða er til að vera á varðbergi gegn þessum vágesti sem oft er einkennalaus og ættu allir fertugir að láta mæla sinn blóðþrýsting reglulega.”
Hóprannsóknir Hjartaverndar sem hafa verið samfellt í gangi frá 1967 gefa góða yfirsýn yfir meðalblóðþrýsting og meðferð hans hér á landi á þessu tímabili. Mynd 1 sýnir að meðalblóðþrýstingur hefur lækkað verulega síðustu áratugi. Þar skiptir vissulega miklu máli kröftugri blóðþrýstingslyf og jafnframt að háþrýstingur er nú greindur og meðhöndlaður oftar og fyrr en áður. Þannig eru nú tvöfalt fleiri meðhöndlaðir vegna blóðþrýstings en var 1967. Jafnframt er athyglisvert að blóðþrýstingur þeirra sem ekki eru á lyfjum hefur einnig lækkað umtalsvert eða um nær 15 mmHg sem væntanlega tengist breyttu mataræði og lífsstíl. (Sjá nánar í 40 ára afmælishandbók Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar á www.hjarta.is). Þessi æskilega þróun á blóðþrýstingi hér á landi á vafalaust sinn þátt í því að tíðni heilablóðfalla og kransæðasjúkdóma hefur lækkað um helming á Íslandi á síðustu tveimur áratugum eða svo.
Hins vegar er alltaf full ástæða til að vera á varðbergi gegn þessum vágesti sem oftast er einkennalaus en tíðni hans eykst mjög með aldri. Því ættu allir sem náð hafa fertugu að láta fylgjast með sínum blóðþrýstingi og reyndar fyrr þeir sem hafa sterka ættarsögu eða sérstaka sjúkdóma. Þannig hafa rannsóknir á síðustu árum sýnt að hjá sykursjúkum á öllum aldri skiptir mjög miklu máli að halda blóðþrýstingi sem allra bestum.
Höfundur er læknir.
MOrgunblaðið 17.05.2008