Íslenska landsliðið okkar í fótbolta er að gera frábæra hluti á EM í Frakklandi og hefur hrifið með sér Íslensku þjóðina og í rauninni allan heiminn. Leikirnir hafa verið gríðarlega spennandi og frábær skemmtun fyrir unga sem aldna. Ýmsir hafa því velt fyrir sér hvort svona spenna sí ofan í æ geti verið óholl fyrir hjartað, ekki síst fyrir þá sem kunna að vera veikir fyrir.
Á dögunum birtist á heilsumal.is pistill eftir Davíð O. Arnar yfirlækni á hjartadeild LSH þar sem hann fjallaði um spennuna sem fylgir EM í fótbolta og áhrifa hennar á hjartað. Ekki varð vart við aukningu heimsókna á hjartadeild eftir Austuríkisleikinn en í kjölfar leiksins við Englendinga þótti okkur hér á hjartalif.is rétt að taka púlsin á Davíð og kanna hvort sá leikur hefði leitt til aukinna heimsókna á Hjartagáttina. Davíð hvað svo ekki vera og velti því upp hvort því væri að þakka að spennan væri á mjög jákvæðum nótum og úrslitin okkur góð og hefði þess vegna ekki neikvæð áhrif.
Pistill Davíðs er hinsvegar góður og ekki síst fyrir fyrir okkur hjartafólk auk þess sem Davíð kemur með góð ráð í aðdraganda slíkra háspennuleikja. Pistillinn fylgir hér fyrir neðan.
Geðshræring og hjartaáföll
Það er þekkt að hjartaáföllum getur fjölgað í kringum atburði þar sem mikil geðshræring grípur um sig, til dæmis við náttúrurhamfarir og jafnvel alvarlegar umferðateppur. Fótbolti getur auðvitað leitt til þess að spennustig einstaklinga hækkar verulega og það hefur verið sýnt fram á aukningu á bráðum hjartatilfellum í kringum mikilvæga leiki. Það var gerð rannsókn í Þýskalandi þegar heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var haldin þar fyrir áratug og kom í ljós að á leikdögum Þjóðverja fjölgaði komum til muna á bráðamóttökur vegna brjóstverkja og hjartsláttartruflana.
Ekki varð vart við fjölgun á heimsóknum á Hjartagátt Landspítala í tengslum við leik Íslands og Austurríkis síðastliðinn miðvikudag þrátt fyrir mjög svo æsilegan endi á þeim leik. Samkvæmt ofansögðu er þó vissulega ákveðin hætta fyrir hendi.
Er hægt að undirbúa sig undir svona átök?
Það er auðvitað ekki hægt að ráðleggja fólki sem er veikt fyrir að horfa ekki á leikinn. Það myndu sennilega ekki margir hlusta á slíkar ráðleggingar hvort eða er. Þetta hefur jú verið þvílík skemmtun hingað til og svona árangur eflir auðvitað þjóðarstoltið svo um munar. Það eru þó nokkur almenn ráð sem rétt er að hafa í huga og gætu dregið úr hættu á bráðum uppákomum varðandi hjartað. Þetta á ekki síst við um þá sem eru með þekktan hjartasjúkdóm.
• Forðast að borða þunga máltíð rétt fyrir eða samhliða leiknum, ekki síst fituríkan skyndimat.
• Ekki vera illa sofin.
• Forðast mikla áfengisneyslu fyrir eða samhliða leiknum.
• Forðast miklar reykingar þar sem tóbak eykur á samdrátt í kransæðum og getur þannig aukið líkur á hjartaáfalli undir þessum kringumstæðum.
• Þeir sem eru á hjartalyfjum ættu að muna sérstaklega vel eftir á taka þau á leikdag. Þetta á ekki síst við ef þeir taka svokallaða beta blokka og hjartamagnýl.
• Ef heitt er í veðri og horft er á leikinn úti, t.d. á Arnarhól getur vatnsdrykkja samhliða verið gagnleg.
• Ef spennustigið hjá einstaklingum verður of hátt, þá er gott að draga andann djúpt nokkrum sinnum og jafnvel taka sér stutt hlé frá leiknum.
Ef einkenni frá hjarta gera vart við sig, einkum brjóstverkur sem varir í meira en nokkra mínútur eða skyndilegur hraður jafnvel óreglulegur hjartsláttur er ágætt að muna eftir númeri Neyðarlínunnar – 112.
Áfram Ísland!