Oft kemur núðlusúpa uppí hugann þegar fólk hugsar um mat og sparnað í sömu andrá. Ég gæti reyndar aldrei gengið svo langt að lifa á núðlusúpum þar sem matur er alltof mikil ástríða í mínu lífi. Mér finnst mikilvægt að borða ferskan og fjölbreyttan mat úr góðu hráefni, helst lífrænt ræktuðu þegar það er í boði og við á.En hagkvæmni, hollusta og jafnvel lúxus þurfa heldur ekki að vera algerar andstæður. Það eru nefnilega til ótal leiðir til að halda buddunni góðri þrátt fyrir að velja gott hráefni, sem stundum er dýrara í framleiðslu. Ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér undanfarið (ég er nefnilega útsmoginn og sparsamur nurlari inn við beinið! Alveg satt!). Ég vil geta notað gott hráefni án þess að líða eins og ég sé að spreða óþarflega.
Bestu ráðin eru í mínum huga:
(ATH engar töfralausnir, bara heilbrigð skynsemi…en gott er að minna sig á við og við)
1) að matreiða sjálf sem mest frá grunni
2) að temja sér virðingu fyrir hráefninu og láta sem allra allra minnst fara til spillis
3) að gefa sér smá tíma í skipulag og undirbúning, dæmi:
*gera matseðil fyrir eina viku í senn og plana innkaupin eftir því, samnýta hráefnið í fleiri rétti
*nota hluta úr degi í að undirbúa næstu viku/r, t.d. baka brauð og pítsubotna, sjóða baunir og frysta
4) nota hlutfallslega ódýrt hráefni eins og baunir og grjón sem uppistöðu í rétti (leiðbeiningar hér)
5) rækta það sem hægt er sjálf (jafnvel þó við eigum engan garð!)
Margir tala um að þegar þeir fara að vanda valið á hráefninu sem þeir nota í matargerð fari þeir ósjálfrátt að bera meiri virðingu fyrir því, eigi mjög erfitt með að láta minnstu örðu fara til spillis og hendi síður afgöngum. Þetta er mjög jákvætt hugarfar að tileinka sér því við vesturlandabúar hendum ALLTOF miklum mat. Þegar við vitum að allt ferlið á bakvið hráefnið sem við keyptum er eins vandað og hægt er þá förum ósjálfrátt að vanda okkur meira sjálf og lítum á hráefnið sem mikil verðmæti sem ekki er verjandi að henda í ruslið. Þeir sem hafa prófað að rækta sitt eigið grænmeti og jurtir fara ósjálfratt að hugsa á þessum nótum (mín reynsla).
Hvað er það sem þú hendir oftast úr ísskápnum? Næst þegar þú kaupir þessa matvöru skaltu vera búin/n að ákveða fyrirfram hvernig þú ætlar að nota hana. Prófaðu að skipuleggja matseðilinn þannig að þú notir þetta hráefni tvo daga í röð svo það nýtist örugglega, ef pakkningarnar eru of stórar fyrir einn rétt. Eða skiptu hráefninu upp í minni skammta og frystu hluta þess sem þú notar ekki strax. Ávexti sem komnir eru á síðasta séns má skera niður og frysta og nota í sjeika og búst seinna.
Að nýta afganga er síðan alger snilld. Marga rétti er hægt að frysta, eða nota sem nesti næsta dag. Svo er líka hægt að umturna afgöngum í dýrindis máltið sem minnir ekkert á máltíð gærdagsins. Pottrétti eða ofnbakað grænmeti er hægt að setja inn í vefjur með salati, eða mauka og nota sem grunn í þykka og ljúffenga súpu næsta dag. Salat gærdagsins má nota í morgunsjeikinn eða pressa úr því safa (ATH passið þá að bera sér fram það sem ekki hentar í sjeik, t.d.: lauk, ólífur, ost, dressinguna.. osfrv.) Svo má ganga enn lengra og nota hratið úr safapressunni í kex eða bakstur. Virkjum hugmyndaflugið.
Á þessum tíma árs er hægt að rækta ótrúlega margt úti í garði eða úti á svölum. Það þarf alls ekki stórt svæði til að rækta smá salat eða kryddjurtir, en þetta er hráefni sem er oft dýrt úti í búð og skemmist hratt. Þeir sem ekki hafa aðgang að pínulitlu útisvæði geta framleitt sitt eigið ferskmeti í eldhúsinu:Eldhúsgrænlingar Spírur
Kryddjurtir eru ómissandi lúxus, en geta verið dálítið kostnaðarsamar. Ferskar kryddjurtir eru svo ljúffengar og gefa ríkt og ferskt bragð og svo er hægt að draga úr saltnotkun þegar maður á nóg af fersku kryddi. En hvernig má auka hagkvæmnina? Í fyrsta lagi eru margir sem nýta ferska kryddið ekki nógu vel, kaupa það dýrum dómum og svo verður oft hluti af því útundan og skemmist á endanum. Hægt er að frysta kryddjurtir sem ekki á að nota strax í góðri olíu, t.d. í klakaboxum, og nota síðan í matseld seinna. Síðan er hægt að spara með því að sá og rækta sjálfur, eða kaupa krydd í potti og halda lífi í því og uppskera þannig áfram. Ef þið kaupið basilíku í potti er sem dæmi sniðugt að skipta plöntunni strax og umpotta í nokkra potta þannig að í hverjum potti séu að hámarki 4 stilkar. Þannig getið þið með smá þolinmæði látið kaupin margfaldast úti í glugga!
Vonandi verða þessar hugleiðingar einhverjum innblástur til betra skipulags. Með góðu skipulagi má nefnilega skapa rými fyrir betra hráefni og kæta þannig buddur, kroppa og bragðlauka.
Gangi ykkur sem allra best!Þessi pistill er úr smiðju Sollu á Gló.
-Auglýsing-