Níu íslenskir hlauparar af hverjum tíu safna áheitum til stuðnings starfsemi um 100 líknar- og góðgerðarsamtaka
Nærri lætur að níu af hverjum tíu skráðra Íslendinga í Reykjavíkurmaraþoni ætli að hlaupa í þágu líknar- og góðgerðarsamtaka að eigin vali. Þannig safna þátttakendur áheitum frá fjölskyldum sínum, vinnufélögum, vinum eða öðrum þeim sem vilja hvetja hlauparana til dáða og styrkja í leiðinni gott málefni.
Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni geta valið úr hópi um 100 líknar- og góðgerðarfélaga af ýmsu tagi og safnað áheitum fyrir þau. Allir landsmenn, sem á annað borð nota greiðslukort og hafa aðgang að tölvu, geta síðan heitið á hlauparana og áheitaupphæðin rennur óskert til viðkomandi líknar- og góðgerðarfélags. Þá heitir Glitnir á starfsmenn sína og viðskiptavini og greiðir 3.000 krónur fyrir hvern kílómetra sem starfsmaður hleypur og 500 krónur á hvern kílómetra sem viðskiptavinur hleypur. Í fyrra söfnuðu 500 Glitnisstarfsmenn á þennan hátt alls 23 milljónum króna fyrir ýmis líknar- og góðgerðarsamtök. Í ár heitir Glitnir líka á viðskiptavini sína og þar með má fullvíst telja að tekjur líknar- og góðgerðarsamtaka af hlaupinu aukist verulega.
Af alls um 1.700 íslenskum hlaupurum sem þegar hafa skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið, hafa yfir 1.500 valið sér góðgerðarfélög til að hlaupa fyrir. Mörg þessara félaga eða samtaka eru nú á þessum áheitalista í fyrsta sinn, önnur voru þar í fyrra og uppskáru sum hver miklar og óvæntar tekjur.
Það er von okkar hér á hjarta.net að þeir sem að láti sig málefni hjartans varða og vilji efla fræðslu og kynningarstarf um hjartasjúkdóma leggi okkur lið. Hægt er að skrá sig á www.marathon.is .