Hvernig skilgreinum við grænmetisætu (vegetarian)? Þótt orðið feli í sér að grænmetis sé neytt, leggur skilgreiningin höfuðáherslu á það sem ekki er borðað. Það sem skiptir mestu máli er að grænmetisætur borða ekki afurðir úr dýraríkinu, eða gera það að mjög takmörkuðu leyti. Áherslurnar eru mismunandi, sumir borða fisk, sumir borða mjólkurvörur og egg á meðan sumir borða engar afurðir úr dýraríkinu. Þannig er t.d. gerður greinarmunur á “vegetarian” og “vegan”.
Orðið “pescetarian” er notað yfir grænmetisætur sem borða engar afurðir úr dýraríkinu nema fisk. Svokallaðir “flexitarian” eða “semi-vegetarian” borða oftast eingöngu afurðir úr jurtaríkinu, en borða þó stöku sinnum kjöt eða fisk. Oftast þegar talað er um “vegetarian” (lacto-ovo vegetarian) er átt við einstaklinga sem borða mjólkurafurðir og egg en engar aðrar afurðir úr dýraríkinu. “Lacto-vegetarian” borða mjólkurafurðir eins og osta og jógúrt en ekki egg. “Ovo-vegetarian” borða egg en engar mjólkurafurðir. Orðið “vegan” er notað yfir þá sem borða engar afurðir úr dýraríkinu ekkert kjöt, engan fisk, ekki egg eða mjölkurvörur og engin unnin matvæli sem innihalda slíkar afurðir.
Fiskur, kjöt og mjólurvörur innihalda miilvæg efnis eins og kalk, járn, joð, B-12 vítamín, omega-3 fitusýrur, ýmis prótín, D-vítamín og zink. Grænmetisætur þurfa að tryggja að þær fái nægjanlegt magn þessarra efna eftir öðrum leiðum.
Niðurstöður breskrar rannsóknar, sem nýlega voru birtar í hinu virta tímariti American Journal of Clinical Nutrition, hafa vakið mikla athygli. Um er að ræða faraldsfræðilega rannsókn þar sem 45 þúsund einstaklingum í Englandi og Skotlandi var fylgt eftir í að meðaltali 11 ár. Meginniðurstaðan var að tíðni kransæðastíflu var marktækt lægri meðal þeirra sem voru gænmetisætur en meðal þeirra sem ekki voru grænmetisætur.
Í upphafi rannsóknarinnar voru þátttakendurnir látnir svara spurningum um mataræði sitt síðasta árið. Þeir sem borðuð ekki kjöt og fisk, alls 34 %, voru skilgreindir sem grænmetisætur. Þannig var ekki gerður greinarmunur á “vegetarians” og “vegan”. Ýmsar aðrir breytur voru skráðir í upphafi, t.d. hæð og þyngd, reykingar, áfengisneysla, menntun, samfélagsstaða, hreyfing, blóðþrýstingur og kólesterólmagn í blóði. Farið var yfir sjúkraskrár og dánarvottorð til að komast að því hversu margir þessarra einstaklinga greindust með kransæðasjúkdóm á rannsóknartímabilinu.
Líkurnar á kransæðstíflu reyndust 4.6% meal gænmetisætanna en 6.8% meðal þeirra sem ekki voru grænmetisætur. Þetta þýðir að hlutfallslega voru líkurnar á kransæðastíflu 32% lægri meðal þeirra sem voru skilgreindir sem grænmetisætur. Þessi munur hélst eftir að leiðrétt hafði verið fyrir öðrum breytum sem geta haft áhrif á tíðni kransæðastíflu eins og reykingar, áfengisneysla, hreyfing, líkamsþyngdarstuðull og samfélagsstaða. Grænmetisæturnar höfðu marktækt lægri líkamsþyngdarstuðul, lægra magn non-HDL-kólesteróls (“vonda kólesterólið”) og lægri blóðþrýsting.
Faraldsfræðileg rannsókna ef þessu tagi sannar ekki að orsakasamband sé til staðar. Með örðum orðum, ekki hefur verið vísindalega sannað að ef þú gerist grænmetisætia minnki líkurnar á að þú fáir hjartasjúkdóm. Ef orsakasamband er til staðar vaknar hins vegar spurningin um hvort það sé fæðan úr jurtaríkinu sem dregur úr hættunni á hjartasjúkdómum, eða hvort það að borða ekki afurðir úr dýraríkinu sé það sem skiptir máli. Einnig hefur verið bent á að grænmetisætur borði oftast minna af unnum kolvetnum en aðrir. Margir telja slík unnin kolvetn afar óholl. Höfundar greinarinnar telja hins vegar líklegt að rekja megi lægri tíðni kransæðaáfalla meðal grænmetisæta til þess að grænmetisætur hafa hagstæðari blóðfitur og lægri blóðþrýsting.
Hvað sem öðru líður verður að teljast afar líklegt að grænmetisfæði hafi jákvæð heilsusamleg áhrif. Rannsóknir hafa bent til að tíðni offitu sé lægri meðal grænmetisæta en annarra og þar með tíðni sykurýki og háþrýstngs.
Þessi pistill er af hinni frábæru heimasíðu www.mataraedi.is sem Axel F. Sigurðsson hjartalæknir heldur úti