Go Red á Íslandi 10 ára

Go Red heldur upp á 10 ára afmæli vitundarvakningar um hjartasjúkdóma kvenna og blæs til ráðstefnu í samstarfi við félgsskapinn 1.6 um heilbrigði kvenna. Go Red átakið er upprunnið í Bandaríkjunum og miðar helst að því að vekja athygli á konum og hjartasjúkdómum. Svo hefur einnig verið hér á landi frá stofnun þess 2009.

Félagið 1.6 fyrir heilbrigði kvenna á Íslandi er systurfélag 1.6 milljonerklubben í Svíþjóð. Markmið félagsins er að bæta umhverfi rannsókna og þjónustu hvers konar þar sem heilbrigði kvenna er í öndvegi og er eins og áður var getið systurfélag 1.6 milljonerklubben í Svíþjóð sem var stofnaður í Svíþjóð árið 1998 af Alexöndru Charles og innblásinn af sögum tveggja lækna, þeirra Karin Schenk-Gustafsson hjartalæknis og Britt-Marie Landgren prófessors í kvensjúkdómalækningum, sem vitnuðu um kynbundna mismunun í rannsóknum á heilsu kvenna og því hvernig tekið væri á móti konum í heilbrigðisþjónustu víðs vegar.

Ráðstefnan er fyrir konur og verður haldin í Silfurbergi í Hörpu. Fjallað verður um hjartasjúkdóma kvenna á öllum aldri m.a. tengt krabbameini og álagi, konur deila með ykkur sögum um áskoranir og áföll sem eru vel þekkt í nútímasamfélaginu á borð við kulnun. Í lok ráðstefnunnar verður kveikt á ljósaverkinu HJARTAVERK á Hörpu og ráðstefnugestum gefst tækifæri á að varpa hjartslætti sínum á ljósahjúpinn fallega.

Sjá má nánari dagskrá hér fyrir neðan.