-Auglýsing-

Gestagangur

GestirÞegar ég opna augun á morgnanna á ég fullkomið líf, það er friður og ró sama hvaða skilningarvit eða mælikvarðar eru notaðir. Þó svo ég sé dálítið stirður svona fyrst frammúr þá er það eitthvað sem lagast strax á fyrstu skrefunum.

Á morgnana á ég fullkomnar stundir einn með sjálfum mér og mér finnst ég alheilbrigður um stund. Ég er hinsvegar minntur á það þegar ég skola lyfjum dagsins niður að sennilega sé nú ekki allt með felldu og allar líkur séu á að gestirnir mínir séu hér ennþá.
 
Heilsufarið er dálítið eins og efnahagur Íslands þessa dagana, ekki alveg upp á sitt besta en stöðugt, alla vega á yfirborðinu. Það má samt lítið út af bera og því fæ ég alltaf að kynnast reglulega, það koma gestir.

-Auglýsing-

Einn af reglulegum gestum eru aukaslög sem eru svo sem ekki hættuleg en afar hvimleið. Gesturinn byrjar venjulega að láta aðeins á sér kræla svona uppúr hádegi bankar létt á dyr og vill komast inn. Lætur hann almennt lítið fara fyrir sér fram eftir degi en færist allur í aukana þegar líður á daginn.

Það getur þó verið aðeins dagamunur á þessu. Á kvöldin og fyrir svefn er þetta oft sérlega leiðinlegt og hefur truflandi áhrif á mig, þessi gestur er sennilega b týpa. Samfara þessu er ég þreyttur sem aldrei fyrr. Nú hefur þessi gestur staldrað við lengur en ég kæri mig um og mér finnst mál til komið að hann fari að hypja sig.

- Auglýsing-

Annar gestur sem reyndar hefur verið hér nokkuð stöðugt síðustu tíu árin og bætir heldur í þegar kaldir vindar blása og kólnar í veðri. Þetta er mæðin sem lætur á sér kræla og við minnstu afhafnir verð ég móður og másandi sem er satt best að segja frekar leiðinlegt. Auk þess, eins og ég nefndi áður þá gerist það þegar hitastig er lágt og blæs á ég stundum slæma daga og ef ég er að flækjast úti þá venjulega þýðir það að mér verður þungt fyrir brjósti, verð andstuttur, þarf að stoppa, hægja á mér og koma mér inn í hlýjuna. Þó svo ég viti að verkur í brjósti geti verið ósköp eðlilegur hjá mér þá er hann ætíð vágestur og illa þokkaður.

Þessum gestagangi fylgir að ég á oft erfitt með að einbeita mér og verð stundum fjarrænn og utan við mig og það er frekar leiðinlegt. 

Svo er það svo undarlegt að þegar einn gesturinn bankar upp á  þá er eins og hringekja fari af stað og allskonar gestir fara að skjóta upp kollinum og maður veltir því fyrir sér hvar þetta endi. 

Það verður að segjast eins og er að það er merkilegt starf að hafa það af atvinnu sinni að taka á móti öllum þeim gestum í formi krankleika sem sjá ástæðu til að leggja leið sína til mín og kann ég þeim stundum ekki miklar þakkir fyrir. Mér finnst líklegt að ef tekist hefði að greina hjartaáfallið mitt rétt og veita viðhlítandi meðferð í tíma væru verulegar líkur á að ég hefði væntanlega sloppið við stærstan hluta þessara gesta, eða þeir hefðu komið við seinna á lífsleiðinni, ég þá betur búinn undir komu þeirra og kannski tilbúinn með barefli við höndina til að varna þeim inngöngu.

Þessi óumbeðni gestagangur veldur ónæði og starfið nýtur ekki mikillar virðingar og er vanþakklátt, svo er kaupið auk þess lélegt og gjaldeyristekjur engar.

Gestirnir eru misþaulsetnir og sumir koma aftur og aftur svo eru líka þessir innan um sem eru komnir til að vera langdvölum. Ég veit ekki hvort þessir gestir sem hafa hugsað sér að fylgja mér ævina gera það af góðvild sinni svo mér leiðist ekki eða af öðrum orsökum. Verð samt að játa að ég hefði mjög gjarnan viljað taka þátt í því vali hverjir staldra lengur við og hverjir ekki en úr því sem komið er er þess þó ekki að vænta.

Ég vil þó taka fram til að fyrirbyggja misskilning að „almennir“ gestir úr mannheimum eru ávallt velkomnir í okkar hús hér eftir sem hingað til. 

Ég er þakklátur fjölskyldunni minni fyrir að sýna mér alla þá þolinmæði sem hún hefur sýnt mér þrátt fyrir það að ég dröslist með flesta þessa gesti mína hvert sem við förum og ég er þakklátur fyrir ástina sem býr í hjartanu, hún er auðfúsu gestur og fylgir mér vonandi fram yfir síðasta andardrátt.

Björn Ófeigs

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-