„Gangi þessar uppsagnir eftir mun það hafa mikil áhrif á spítalann, því sjúkdómsgreiningar byggjast að stórum hluta á röntgenrannsóknum sem unnar eru á myndgreiningarsviði,“ segir Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga.
Að sögn Katrínar eru geislafræðingar ósáttir við nýkynntar breytingar á vinnutíma þeirra, en breytingarnar felast í því að geislafræðingum er gert að ganga vaktir. „Geislafræðingar telja að þessi breyting skerði þeirra kjör það mikið og sé það mikil breyting að þeir líta á það sem uppsögn.
Grunnlaun geislafræðinga hafa verið mjög lág, þannig að gæsluvaktir og bakvaktir með eftirvinnu hafa verið það sem hefur haldið starfsfólki á spítalanum. Þegar svo er dregið úr slíku eru kjörin orðin þannig að menn sjá sér ekki lengur fært að vinna við spítalann,“ segir Katrín og tekur fram að geislafræðingar telji nýtt vinnuplan einnig mjög ófjölskylduvænt og treysti sér sökum þess heldur ekki til að vinna samkvæmt því.
Morgunblaðið 26.03.2008