Hjartaheill hafa afhent Hjartavernd 5,5 milljónir til kaupa á nýju ómtæki.
Rannsóknarstöð Hjartaverndar og Hjartaheill lýstu formlega yfir auknu samstarfi sín á milli við hátíðlega athöfn nú í upphafi ársins. Þetta aukna samstarf verður til þess að þekking sú sem rannsóknir Hjartaverndar gefa af sér mun koma fyrr og með markvissari hætti til almennings og stjórnvalda.
Á þessum tímamótum færði Hjartaheill Hjartavernd höfðinglega gjöf, 5,5 miljónir króna til kaupa á nýju ómtæki. Ómtæki Hjartaverndar er úr sér gengið en með þeirri tækni má greina byrjunarstig æðakölkunar löngu áður en hjarta- og æðasjúkdómar gera vart við sig.
Guðmundur Bjarnason, formaður Hjartaheilla og fv. heilbrigðisráðherra, afhenti fyrir hönd Hjartaheilla Vilmundi Guðnasyni, prófessor og forstöðulækni Hjartaverndar, þessa rausnarlegu gjöf sem sagði hana skipta sköpum í rannsóknum á byrjunarstigi æðakölkunar en rannsóknir þær sem Hjartavernd stendur fyrir í dag koma að öllum líkindum í framtíðinni til með að bæta lífsgæði og heilsu eldri íbúa landsins en eldra fólki á Íslandi mun fjölga verulega næstu áratugina.
Stjórn Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar og Hjartaheilla vill nota þetta tækifæri til að þakka landsmönnum öllum hjartanlega fyrir ómetanlegan stuðning í forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum.
www.mbl.is 22.02.2013