Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, mun ásamt framkvæmdastjórum og öðrum stjórnendum spítalans boða til funda með starfsmönnum deilda um sparnað og hagræðingu. Stærstum hluta hvers fundar verður varið í að hlusta á tillögur starfsmanna um sparnaðaraðgerðir á viðkomandi einingu og gera áætlun um framkvæmd þeirra með frumkvæði starfsmanna.
Í vikulegum pistli forstjórans sem birtur er á vef Landspítalans kemur fram að nokkrir fundir verði haldnir fyrir áramót en flestir í byrjun næsta árs.
„Á fundunum verður farið yfir helstu áhersluþætti í rekstrinum, greint verður frá sparnaðaraðgerðum sem þegar eru í gangi, gefnar upplýsingar um stöðu viðkomandi deildar og síðast en ekki síst verður stærstum hluta fundarins varið í að hlusta á tillögur starfsmanna um sparnaðaraðgerðir á viðkomandi einingu og gera áætlun um framkvæmd þeirra með frumkvæði starfsmanna. Þannig getur hver og einn lagt af mörkum til að spara í því umhverfi sem hann þekkir best, með öryggi sjúklinga að leiðarljósi,” segir Björn.
www.visir.is 04.12.2009