Í tilefni af umfjöllun Viðskiptablaðsins undanfarna daga um byggingarkostnað fyrirhugaðs háskólasjúkrahúss er nauðsynlegt að koma þeirri leiðréttingu á framfæri að ekki er unnið eftir þeim áætlunum sem þar er vísað til.
Undirbúningur nýs háskólasjúkrahúss tekur mið af frumhönnun dönsku arkitektastofunnar C.F. Möller sem varð hlutskörpust í skipulagssamkeppninni árið 2005. C.F. Möller lauk við frumáætlun í febrúar síðastliðnum og vann í framhaldi af henni frumkostnaðarmat. Frumáætlunin og kostnaðarmatið var yfirfarið af Framkvæmdasýslu ríkisins sem komst að þeirri niðurstöðu að undirbúningsvinnan væri vönduð og gæfi ekki tilefni til hærri óvissumarka en 15%. Það kom enn fremur fram í skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins að þessi niðurstaða væri innan skekkjumarka frá kostnaðarmati áfangaskýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahús frá árinu 2004.
Áætlaður byggingarkostnaður tæpir 60 milljarðar
Frumkostnaðarmatið sem ráðgjafateymi C.F. Möller arkitekta vann að beiðni nefndar um byggingu nýs háskólasjúkrahúss er byggt á frumhönnun sjúkrahússins, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum að lokinni frumathugun, og miðast við byggingavísitölu í febrúar 2008. Samkvæmt því er áætlað að kostnaður við byggingar nýja háskólasjúkrahússins verði tæplega 60 milljarðar kr., en þar af eru um 2,2 milljarðar kr. vegna þeirra háskóladeilda sem verða innan veggja sjúkrahússins.
Nánar um kostnaðarmatið
Samkvæmt grófri sundurliðun á kostnaði við byggingar nýja sjúkrahússins eru ríflega 23 milljarðar kr. áætlaðir vegna meðferðar- og bráðakjarna, um 10 milljarðar kr. til byggingar tveggja legudeildaálma, ríflega 6 milljarðar kr. vegna rannsóknarstofa Landspítalans og 7,6 milljarðar vegna göngudeildarhúss. Þá er kostnaður við inngang, eldhús, vörumóttöku o.fl. áætlaður tæplega 3 milljarðar kr. og kostnaður við bílastæðahús 5,5 milljarðar kr., en til skoðunar er hvort minnka megi bílastæðahúsið og þar með lækka kostnað. Þá eru 3,8 milljarðar kr. áætlaðir til undirbúnings svæðisins og frágangs lóðar.
Ráðgjafateymi F.C. Möller arkitekta bendir á að þegar byggingar eru hannaðar með sveigjanleika í rekstri og framtíðarbreytingar í huga, hækki stofnkostnaður að vissu marki en að sama skapi sparist kostnaður síðar sem ella félli til vegna ófyrirséðra breytinga.
Til viðbótar kostnaði við byggingar nýja háskólasjúkrahússins eru um 9,5 milljarðar kr. áætlaðir vegna lækningatækja, húsbúnaðar, sjálfvirkra tæknivagna o.fl., en talið er að um 25% af tækjabúnaði geti komið frá núverandi búnaði sjúkrahússins. Jafnframt ber að árétta að töluvert af búnaði Landspítala er tekinn á leigu og telst því til rekstrarkostnaðar en ekki stofnkostnaðar. Þá er ríflega hálfur milljarður áætlaður vegna áfangauppbyggingar sjúkrahússins en ráðgert er að hægt verði að byrja framkvæmdir við fyrsta áfanga þess árið 2010. Rétt að árétta, til að fyrirbyggja misskilning, að kostnaðarmöt sem unnin hafa verið vegna byggingar nýs háskólasjúkrahúss fela í sér allan kostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.
Að lokum, kostnaður vegna bílastæðahús er meðtalinn hér að ofan en samkvæmt kröfum byggingarreglugerðar reiknast hann um 5,5 milljarðar kr. Nú standa yfir viðræður um stærð bílastæðahússins um breytingar á kröfum um fjölda bílastæða.
www.haskolasjukrahus.is 29.05.2008