-Auglýsing-

Formaðurinn kannar á eigin skinni hvernig kerfið virkar

Það er óhætt að segja að Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hafi tekið hlutverk sitt alvarlega eftir að heilbrigðisráðherra skipaði hana formann í ráðgjafarnefnd Landspítalans síðastliðið haust.

Ráðgjafanefndin, sem Ingibjörg Pálmadóttir er formaður í, hefur m.a. það hlutverk að móta stefnu og vera forstjóra til ráðgjafar um málefni spítalans. Ingibjörg segir að síðan þá megi segja að hún hafi verið „á fullu að kanna innviði stofnunarinnar,“ og það á eigin skinni. „Það voru ekki liðnir margir dagar frá því að ég tók við hinu merka hlutverki að ég ákvað að prófa að leggjast inn á bráðamóttöku,“ segir Ingibjörg sem deilir sögu sinni með starfsfólki sjúkrahússins í innanhúsfréttabréfinu Spítalapúlsinum sem kom út í vikunni.

Á bráðamóttökunni dvaldi Ingibjörg næturlangt en fór í kjölfarið í kransæðaþræðingu. En sjúkrasögunni var ekki þar með lokið. „Þegar ég svo útskrifaðist þetta fyrra sinnið, sæmilega málhress að minnsta kosti, fannst mér kerfið ekki nægilega reynt þannig að ég sendi bónda minn í sama leiðangur.“

-Auglýsing-

Hægt að læra margt á dvöl á bráðamóttöku
Bóndi Ingibjargar er Haraldur Sturlaugsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarmaður í HB Granda á Akranesi, og dvaldi hann einnig á bráðamóttökunni. Sagði hann eftir þá reynslu að hver sá sem teldi að ekki ætti að flýta byggingu nýs spítala í Reykjavík „ætti að liggja þarna hið minnsta í tvær nætur og það í hinu almenna rými þar sem karlar með hjartaverki, konur með utanlegsfóstur, kveisur og uppköst af ýmsu tagi, liggja öll á sömu stofu ásamt háöldruðu fólki sem neitar að fara heim þegar búið er að stilla gangverkið og heimtar að nú sé litið á gyllinæðina sem plagað hefur lengi,“ líkt og Ingibjörg kemst að orði í Spítalapúlsinum. „Það er sem sagt hægt að læra mikið um hina fjölbreytilegu krankleika með því að gista bráðavaktina því erfitt er að dulkóða milli tjalda,“ segir Ingibjörg.

 „Lamdi“ hann aftur í gang
Eftir að bóndinn hafði reynt kransæðaútvíkkun fór Ingibjörg með hann heim á leið en ekki vildi þá betur til en svo að hann missti meðvitund á leiðinni við hliðina á henni í bílnum. „Með Guðs hjálp og góðum vilja tókst mér að lemja hann í gang aftur og hef ég aldrei verið eins þakklát og glöð og þegar ég fann að hann var kominn til mín aftur,“ segir Ingibjörg. Haraldur kom svo heim af sjúkrahúsinu allmörgum dögum síðar.

- Auglýsing-

„Þá fór ég að sjálfsögðu að hugsa mér til hreyfings aftur enda aldrei verið mikið fyrir slór,“ lýsir Ingibjörg atburðarásinni. „Hélt ég fljótlega aftur að heiman og nú allan hringinn aftur á Lansanum og dvaldi nú lengur en nokkru sinni fyrr og prófaði flest tæki og tól sem á annað borð voru í lagi.“

Speglunardagurinn mikli
Ingibjörg segir hápunkt reynslunnar það sem hún kallar „speglunardaginn mikla“ sem byrjaði hjá Bjarna Þjóðleifssyni, meltingarsérfræðingi. Átti þetta sér stað rétt fyrir áramótin. „Ég var rétt búin að segja honum hvað mér þætti mikið vænt um móður hans, enda kýs hún alltaf Framsókn, er mér var gefin sprauta sem færði mig gjörsamlega út úr veröldinni,“ hefur Ingibjörg söguna af þessum degi. Framhaldið er eftirfarandi: „Ég vaknaði inni hjá Ásgeiri Theodórs [meltingarsérfræðingi] og ætlaði að fara að spyrja hann um Höbbu mágkonu hans þegar ég fékk meiri inngjöf svo ég nennti vart að anda. Ég rumskaði annað slagið við blíðleg orð: „Andaðu vina! Andaðu!“ og ég hef greinilega tekið tillit til þess. Man ég nú afar slitrótt eftir deginum nema hvað alltaf var verið að koma inn til mín og minna mig á að ég ætti tíma hjá augnlækni kl. 3 úti á Eiríksgötu: „Mundu eftir augnlækninum! Það er afar mikilvægt!“ Ég vildi helst fá að sofa eftir þessar rausnarlegu trakteringar og hafði eiginlega ekki rænu til að takast á við ferðalag en eftir þrjá kaffibolla ákvað ég að taka snyrtibudduna upp og hressa verulega uppá guggið andlitið.“

Sparaði ekki sólarpúðrið
Og sagan heldur áfram: „Eitthvað hefur trúlega vantað upp á nákvæmnina en hins vegar ekkert til sparað við verkið, allir litir látnir njóta sín. Ég þverneitaði að fara í hjólastól þótt ég skjögraði en afar vinalegur karlmaður á mínum aldri (fyrirgefðu ef þú ert yngri!) var fenginn til að leiða mig út. Strax í lyftunni varð ég vör við að eitthvað var bogið við mig. Heimilislæknir einn, kunningi minn, sem í lyftunni var, horfði mjög stíft á mig: „Liggur þú hér inni, Ingibjörg?“ – „Á hvaða deild?“ sá ég hann spurði sjálfan sig en kunni sig og bað mér blessunar.

Þegar ég svo settist á biðstofuna á Eiríksgötunni hélt ég að ég hlyti að vera með opna buxnaklauf, eða þaðan af verra, því fólk horfði á þessa útúrdópuðu konu sem hafði sett á sig svo mikið sólarpúður að hún var eins og kelling á sólarströnd sem hefur gleymst dögum saman úti á bar.

Ég var með sódavatnsflösku í hendi, sem ég vona að ég hafi ekki stolið frá einhverjum, og var sífellt að biðja um ábót á flöskuna til að halda mér vakandi.

Var nú komið að mér. Ungur piltur, ósköp geðugur, setti allavega dropa í augun og kom mér í ýmis tæki og sagði að ég væri með margar öldrunarbreytingar.

„Þú þarft að fara til sérfræðings,“ sagði hann. Nú, var ég ekki hjá honum? Nei, og allir slíkir farnir heim. Nú var mér allri lokið.

Þessi piltur var að vinna þarna um tíma, ætlaði í barnalækningar. Hann lærði sjálfsagt töluvert af því að sjá mig og skoða þótt ég sé í sjálfu sér ekkert ungabarn lengur – og ég sendi honum mínar bestu kveðjur! Nú var að komast á deildina aftur. Verðandi barnalæknirinn sagði að það væri ekkert mál, hann væri að fara út á spítala. Ég tók undir arm hans, sem betur fer fyrir hann því hann var á blankskóm og ég, til allra hamingju, gat varið hann falli í hálkunni.

Þegar inn á deild var komið beið minn ástkæri eiginmaður. Upplitið á honum fer ekki úr huga mér. „Hvað er að sjá þig, kona? Hvað ertu með framaníðér?“ Ég leit í spegil. Það var ekki undur þótt ég hafi vakið athygli, kaffibrún um helming andlitsins, þar á milli náhvít með svarta tauma frá augum! Sjáöldrin virtust ætla út úr andlitinu og voru eins og undirskálar eftir alla dropana – og enn var ég vel í kippnum.“

Ber virðingu fyrir starfsfólkinu

Ingibjörg segist hafa viljað deila sögu sinni með fólki „þegar ég sé þetta núna úr svolítilli fjarlægð og nokkurn veginn er runnið af mér,“ segir hún. „Það minnir okkur á að það eru ekki allar ferðir til fjár þó farnar séu.“

- Auglýsing -

Ingibjörg lýkur frásögn sinni á því að þakka starfsfólki spítalans fyrir einstaka þolinmæði við sig meðan hún hafi verið að prófa heilbrigðiskerfið.

„Það getur vel verið að ég eigi eftir að segja ykkur meira af formannsferli mínum og þá vonandi í öðrum dúr. Meðan ég er að melta þessa reynslu hef ég hægt um mig og læt lítið fyrir mér fara fyrr en með vorinu.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Ingibjörg að hún teldi starfsfólk Landspítalans einstakt og að reynsla sín undanfarnar vikur hefði styrkt þá skoðun. „Ég ber alveg einstaklega mikla virðingu fyrir þessu fólki og störfum þess.“

Þá sé engin spurning að bæta þurfi húsnæði spítalans, ekki síst bráðadeildanna. Ingibjörg segist vera „að vinna í því“ að ná bata. Ráðgjafanefndin sem hún sé í formennsku fyrir, hafi nýlega fengið erindisbréf. „En ég er í leyfi frá formannsstörfunum á meðan ég er að kanna kerfið,“ segir hún hlæjandi.

Morgunblaðið 17.02.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-