Félagar í Íþróttafélagi Reykjavíkur og nemendur í Verslunarskólanum eru í áfalli eftir að 18 ára fótboltamaður hné niður eftir fótboltaæfingu í gærkvöldi og lést. Minningarathöfn verður haldin í kvöld.
Það var eftir æfingu með öðrum flokki ÍR í fótbolta í gærkvöldi að pilturinn hné niður. Hann lést skömmu síðar í sjúkrabíl á leiðinni á Landspítalann. Talið er að hann hafi fengið hjartaáfall.
Flaggað var í hálfa stöng við ÍR heimilið í dag. Framkvæmdastjóri félagsins segist enn vera í áfalli. Hann segir þetta hafa verið eins og að missa fjölskyldumeðlim.
Samnemendur piltsins í Verslunarskólanum minntust félaga síns í dag með því að skrifa í minningarbók sem komið verður til foreldra hans.
Bekkjarfélögum sem og liðsfélögum drengsins hefur eða verður veitt áfallahjálp.
Ekki er unnt að greina frá nafni piltsins að svo stöddu.
www.visir.is 26.11.2009