Enn ein rannsókn sem hvetur til súkkulaðineyslu hefur litið dagsins ljós. Vísindamenn við háskólasjúkrahús í Köln halda því fram að munnfylli af dökku súkkulaði á dag lækki blóðþrýsting og dragi úr hættu á hjartaáfalli.
Kenningin um þennan eiginleika dökks súkkulaðis er ekki ný af nálinni. Þó halda margir sérfræðingar því fram óhollustan sem fæst úr súkkulaði vegi ríflega upp á móti meintum lækningamætti þess. Bent hefur verið á að til að draga úr blóðþrýstingi þurfi að innbyrða mikið magn súkkulaðis og við slíka neyslu sykurs og fitu lækki blóðþrýstingurinn varla mikið. Vísindamennirnir í Köln telja aftur á móti að ekki þurfi mikið magn súkkulaðis til að blóðþrýstingur lækki. Þeir birtu niðurstöður sínar í tímaritinu Journal of American Medicine.
Í tilraun sinni skiptu þeir fjögurtíu og fjórum einstaklingum með of háan blóðþrýsting upp í tvo hópa. Í öðrum hópnum snæddi hver þátttakandi 6 grömm af dökku súkkulaði á dag. Í hinum var hvítu súkkulaði á boðstólum. Niðurstaðan var einfaldlega sú að hjá fólkinu sem neytti dökks súkkulaðis lækkaði blóðþrýstingurinn, en hjá hinum stóð hann í stað.
www.visir.is 04.07.2007