Heilbrigðisráðuneytið hefur brýnt fyrir heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum að upplýsa sjúklinga fyrirfram um kostnað við læknisaðgerðir.
Ráðuneytið hefur með bréfi vakið athygli heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa á því, að stofnununum ber að upplýsa sjúklinga áður en til læknismeðferðar kemur hve mikið greiða skuli fyrir meðferðina. Þá ber stofnunum að afhenda sjúklingi reikning með upplýsingum um gjaldtökuna. Um er að ræða svokölluð ferliverk sem unnin af sérfræðilæknum á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Þetta er gert til að ítreka skyldurnar í þessum efnum gagnvart sjúklingum, en komið hefur fyrir að kvartað hefur verið til ráðuneytisins um þetta hafi ekki verið gert. Þá er áréttað að stofnun ber að afhenda reikning þar sem fram koma upplýsingar um það sem greitt er fyrir.
Ráðuneytið hefur með bréfinu vakið athygli á að þegar sérfræðilæknisþjónusta er veitt á göngudeildum heilbrigðisstofnana eða sjúkrahúsa er um að ræða ferliverk. Með ferliverkum er átt við læknismeðferð, sem unnt er að veita hvort sem er á læknastofum sérfræðinga utan sjúkrahúsa, á sjúkrahúsum eða heilbrigðisstofnunum og krefst ekki innlagnar á sjúkradeild nema í undantekningartilvikum. Það er fyrst og fremst eðli læknismeðferðarinnar sem ræður úrslitum um það hvort verk telst ferliverk, en ekki hvort sjúklingur dvelst á viðkomandi stofnun næturlangt í undantekningartilvikum.
Gjaldtaka fyrir slík ferliverk fer samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 1265/2007 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og reglugerð nr. 1076/2006 um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna.
www.heilbrigdisraduneyti.is 14.01.2008