Brostin hjörtu

Brostin hjörtu

SólseturReglulega berast okkur til eyrna fregnir af fólki sem deyr skyndilega og fyrirvaralaust af völdum hjartaáfalls/hjartastopps.  Sumir látast langt fyrir aldur fram og eftir standa fjölskyldur og vinir buguð af sorg með ósvaraðar spurningar.

Þegar við fáum fregnir af slíku bregður okkur og við verðum hugsi hjartað brestur um stund og okkur verður ljóst að ekkert okkar er ódauðlegt. Það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi.

Algengasta dánarorsökin

Hjarta og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök Íslendinga. Árlega deyja úr þeim um 800 manns eða tæplega 40% af öllum þeim íslendingum sem látast á hverju ári. Það gerir að á hverjum degi deyja um það bil tveir einstaklingar að meðaltali úr hjarta og æðasjúkdómum sem eru fleiri en látast af öllum krabbameinunum samanlagt.

Það má því með sanni segja að hjarta og æðasjúkdómar séu mikill vágestur í okkar samfélagi og reyndar um allan heim.

Hvað getum við gert?
Um það verður ekki deilt að erfðarþættir hafa mikil áhrif um það hvernig okkur vegnar í baráttu við hjartasjúkdóma á lífsleiðinni og því er mikilvægt að vera meðvitaður um fjölskyldusögu sína með tilliti til slíkra sjúkdóma. Besta ráðið er að vera í virku eftirliti, vera meðvitaður um blóðþrýstings og kólesterólgildi sín og þannig leggja sitt lóð á vogarskálina til að þekkja eigin áhættu og geta brugðist við ef þörf krefur.

Það er heldur ekki deilt um að lífsstíll og mataræði hefur mikil áhrif á þróun hjarta og æðasjúkdóma og enn og aftur er það svo að við höfum það í okkar höndum hvernig við spilum úr þeim spilum. Við veljum jú mataræði okkar og hvernig við kjósum að lifa lífi okkar.

Síðast en ekki síst þá er það hreyfingin sem er okkur náttúruleg og eðlileg leið til að láta líkamanum líða vel. Í þessum efnum verður hver og einn að velja sína leið en rétt að benda á að reglulegur göngutúr sem þarf hvorki að vera langur eða erfiður getur verið allt sem þarf.

Það er því vel hægt að segja að í mörgum tilfellum sé hver og einn sinnar gæfu smiður í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum, ábyrgðin á eigin lífi, að gera okkar besta í aðstæðum okkar sé á okkar herðum.

Bið getur kostað mannslíf
Eins sorglegt eins og það er staðreyndin sú að ákveðinn hópur fólks sem kunni sér einskins meins lætur lífið af völdum hjartaáfalls eða hjartastopps. Meðvitund um líkamlegt ástand, lífsstíl og sögu er mikilvæg og við minnsta grun um að ekki sé allt með felldu skal tafarlaust leita læknis eða á bráðamóttöku/ Hjartagátt. Það er því gríðarlega mikilvægt að hlusta á líkama sinn því rannsóknir sýna að hjartastopp eru ekki alltaf algjörlega fyrirvaralaus.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að konur virðast ekki fá sömu þjónustu eða meðhöndlun og karlar þegar kemur að hjartanu og tefur þessi staðreynd oft á tíðum rétta greiningu. Þá er það einnig merkilegt að rannsóknir sem gerðar eru og tengjast hjartanu eru aðeins í um 30% tilfella gerðar á konum og gefur auga leið að það gefur ekki rétta mynd. Kynin eru nefnilega ekki eins

Því miður er það svo að einhverjir einstaklingar þar sem grunur leikur á að um hjarta eða æðasjúkdóm sé að ræða og er jafnvel kominn á biðlista eftir hjartaþræðingu fellur frá. Sumt af þessu fólki lifir einfaldlega biðina ekki af og deyr af völdum sjúkdómsins áður en röðin kemur að þeim. Hugsanlega er þar að hluta til blóðugum niðurskurði síðustu ára um að kenna. Slíkar aðstæður þýða biðlista, biðlista sem geta kostað mannslíf.

Þó er rétt að taka fram að þegar um bráðatilvik er um að ræða þá kemst fólk strax í þræðingu.

Tökum ábyrgð á eigin lífi
Lífið er dýrmætt og ljóst að ef grunur leikur á að hjartað virki ekki sem skildi skal undir engum kringumstæðum taka áhættur og brjóstverkir og hjartsláttartruflanir eru dauðans alvara eins og dæmin sanna.

Sjálfsagt verður aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir skyndidauða af völdum hjarta og æðasjúkdóma en við getum svo sannarlega lagt okkar að mörkum til að minnka líkurnar á því að það hendi okkur sjálf eða okkar nánustu.

Verum góð við hvort annað því við vitum aldrei hvaða hjarta brestur næst.

Björn Ófeigsson

Munið eftir að læka við okkur á Facebook