Mér finnst Björn Zoëga forstjóri LSH hafa staðið sig vel í starfinu sínu sem forstjóri LSH og mér fellur vel við þær áherslur sem hann setur á öryggi sjúklinga. Satt best að sega finnst mér aðdáunarvert hvernig andinn virðist hafa breyst á spítalanum á síðustu misserum en ekki er langt síðan stofnunin logaði stafnanna á milli í illdeilum. Kannski er það svo að erfiðir tímar hvetji fólk til að leita sátta og sína samstöðu. Nýjasti föstudagspistill Björns sem birtur er á vef LSH er allrar athygli verður og gladdi mig sérstaklega ummæli hans um að atvikaskráning verði efld og farvegur fyrir kvartanir og kærur styrktur. Finnast mér þessi ummæli hans afar jákvæð í ljósi þess að það hefur tekið mig átta ár að reyna fá fram lausn á mínum málum gagnvart spítalanum og ekki lokið enn. Hvað um það batnandi mönnum er best að lifa og fylgir pistill Björns Zoëga í heild sinni hér fyrir neðan.
Álag á spítalanum er þessar vikurnar með mesta móti en ekki óviðráðanlegt. Eins og þið þekkið er í stefnu spítalans lögð áhersla á öryggi sjúklinga. Í fyrri pistlum hefur verið bent á að þetta verkefni hafi haft forgang 2010 en á því ári var það sérlega krefjandi vegna mikillar hagræðingarkröfu. Samkvæmt þeim gögnum sem við notum hér á spítalanum, og þeim gögnum sem Landlæknisembættið fylgist reglulega með, verður ekki annað séð en vel hafi gengið þrátt fyrr þröngan stakk. Dauðsföll á sjúkrastofnunum eru eitt dæmi um slík gögn en þau hafa verið til umræðu í fjölmiðlum nýlega. Árið 2010 létust jafnmargir á Landspítala og árið 2007 eða 497. Enginn marktækur munur er á meðaltali undanfarinna fjögurra ára hvað þetta varðar.
Brýnt er að fjalla um gæða- og öryggismál sjúklinga á faglegan hátt og sem mest út frá gögnum en forðast upphlaup sem hræða sjúklinga, svekkja starfsfólk og eru umfram allt algerlega gagnslaus.
Öryggi sjúklinga verður ávallt mikilvægasta verkefni spítalans á hverju ári. Aldrei er mikilvægara að halda því á lofti en þegar fjárframlög til starfseminnar eru skert. Á þessu ári verður lögð sérstök áhersla á skipulag og framkvæmd gæðamála og áfram fylgst náið með gæðavísum svo sem tíðni spítalasýkinga, byltum og legusárum og markvisst unnið að fækkun slíkra atvika. Við þurfum að byggja aðgerðir og umbætur á tölulegum gögnum. Að auki munum við áfram leggja áherslu á umræðu um hvers kyns umbætur. Gefin verða út ráð til sjúklinga sem hvetja til þátttöku í eigin meðferð, atvikaskráning efld og farvegur fyrir kvartanir og kærur styrktur. Ég mun segja ykkur nánar frá ýmsum af þessum verkefnum í komandi pistlum.
Gleymum ekki að störf okkar hér á spítalanum eru afar mikilvæg. Missum aldrei sjónar á því að bæta hag og öryggi sjúklinganna og verum áfram, öll sem eitt, staðráðin í því að þjóna þeim sem best.
Baráttukveðjur, látið í ykkur heyra,
UMHYGGJA, FAGMENNSKA, ÖRYGGI, FRAMÞRÓUN
www.landspitali.is 28.01.2011