iPod-spilarar geta reynst hættulegir þeim sem nota hjartagangráð. Þetta kom fram í könnun sem bandarískur menntaskólanemi sýndi hjartasérfræðingum á dögunum. Skýrt er frá þessu á vefsíðu CNN. iPod-spilararnir senda frá sér raftruflanir sem geta haft áhrif á starfsemi gangráða, og í einu tilfelli í könnuninni stöðvaðist gangráðurinn.
Það var hinn sautján ára Jay Thaker sem gerði könnunina á 100 sjúklingum, en meðalaldur þeirra var 77 ár.
Þegar iPod var haldið tveimur tommum frá brjósti þeirra sem tóku þátt í könnuninni námu gangráðarnir rangan hjartslátt vegna raftruflana í helmingi tilfella, þá reyndust truflanir frá spilurunum geta haft áhrif á gangráða í allt að 18 tommu, eða um 45 sentimetra fjarlægð.
Í einu tilfelli stöðvaðist gangráðurinn vegna truflananna, en slíkt getur reynst lífshættulegt. Það hlýtur því að teljast lán í óláni að fáir aldraðir nota iPod.
mbl.is 11.05.2007