HAMINGJUÓSKUM og kossum rigndi yfir trúnaðarmenn skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga í húsi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á níunda tímanum í gærkvöldi eftir að ljóst varð að horfið yrði frá fyrirhuguðum breytingum á vaktafyrirkomulagi þeirra á Landspítala. Trúnaðarmönnunum var fagnað með dynjandi lófaklappi er þeir kynntu niðurstöðu funda með heilbrigðisráðherra og fulltrúum spítalans sem stóðu nær sleitulaust í allan gærdag, og augljóst að mönnum var létt, enda náð fram sínum markmiðum: Starfandi forstjórar Landspítala lýstu því yfir að það vinnufyrirkomulag sem öðlast átti gildi í dag, 1. maí, „er ekki til umræðu lengur“. Unnið verður nú að því í samráði allra aðila að gera vinnuskipulag í takt við vinnutilskipun ESB.
Gengið að öllum kröfum
„Það var gengið að öllum okkar kröfum, þessu breytta vaktakerfi var fleygt út af borðinu, kerfi sem við vildum alls ekki taka upp,“ segir Elín Ýrr Halldórsdóttir, talsmaður skurðhjúkrunarfræðinga. „Við lítum á þetta sem fullnaðarsigur.“
Mikill meirihluti þeirra 96 hjúkrunarfræðinga, sem sagt höfðu upp störfum, dró því uppsagnir sínar til baka í gærkvöldi en um tugur þeirra stendur við uppsögn sína og hætti störfum á miðnætti.
www.mbli.is 01.05.2008