Nýtt ár er nú hafið og það gamla sprengdum við upp með glæsibrag eins og okkur einum er lagið. Við kvöddum gamlar stundir með hlöðnu veisluborði og á nýju ári setjum við stefnuna á nýja sigra.
Mjög margir nota þessi tímamót til að taka stöðuna, hvernig gekk að ná árangri drauma síðustu áramóta? Hvað tókst vel og hvað stendur eftir? Margir stóðu tvíefldir í bjarma tindrandi ljósa og hugsuðu með stolti til árangurs liðins árs og fyrirheit nýs árs voru fögur.
Mjög margir stóðu hins vegar eftir með rakettu í annarri, kampavínsglasið í hinni og vonbrigðin kitluðu gleði ljósadýrðarinnar. Enn einu sinni var nýja áramótaheitið uppfærð útgáfa fyrra heits því ekki tókst til sem skyldi. Núna skal þetta sko takast. Núna get ég… held ég… Nokkurra ára reynsla hefur þó grafið aðeins undan trúnni á eigin getu og örlítill ótti læðist að.
Áramótaheit geta verið gagnleg og góð. Mannskepnan mun alltaf sem betur fer berjast við að bæta sig og það er gott. Áramót eru líka alveg eins góður tími til að gera breytingar og hver annar. Það sem skiptir máli hins vegar er að þær breytingar sem ákveðið er að gera séu gerðar af eigin áhuga og í takt við eigin þarfir og smekk en ekki vegna þess að allir eiga að vera mjóir og drekka græna safa í janúar.
Þó það sé auðvitað vel að ætla sér betri heilsu og að huga að holdafari um þessi áramót sem og aðra daga, þá má það ekki gleymast að hugsa sér nær þegar kemur að áramótum. Andleg líðan hefur gríðarlega mikið að gera með almennt heilsufar. Andleg líðan hefur áhrif á árangur í lífsstílsbreytingum. Þunglyndi, kvíði og lágt sjálfsmat þyngir skrefin í átt að hlaupabrettinu og gæði samskipta við okkar nánustu taka úr okkur orku eða gefa.
Hvernig væri að setja sér áramótaheit í þetta skiptið sem snýr að líðan og andlegri heilsu? Samskiptum og framkomu okkar gagnvart okkur sjálfum sem og öðrum? Hefur þú spáð í það af hverju þú ert í þeim sporum að þurfa að setja þér áramótaheit um heilsu? Hvað hefur stoppað þig hingað til í að ná þeim árangri sem þú vilt ná?
Það þykir sjálfsagt mál að ráða til sín einkaþjálfara á heilsuræktarstöð þegar tekið skal á líkamlegri heilsu. Það ætti að vera jafn sjálfsagt mál að ráða til sín sálfræðing til að takast á við andlega heilsu. Ég hvet þig því til að hugsa þér nær þegar þú hugsar um áramótaheit þessa nýja árs. Hugsaðu um það hvað myndi raunverulega auka lífsgæði þín og jafnvel styðja við líkamlega heilsu um leið.
Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
mjollj@heilsustodin.is