Í NÆSTU viku ganga þær breytingar í gildi að læknar hætta að ganga vaktir á neyðarbíl höfuðborgarsvæðisins. Búið er að ganga frá flestum lausum endum og mun fyrirkomulagið verða þannig til að byrja með að læknir verður sóttur á bráðamóttöku LSH í Fossvogi komi upp alvarleg tilvik. Læknir sem Morgunblaðið ræddi við telur þetta verða til þess að útkallstími lækna lengist – jafnvel um 6-8 mínútur – en slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins og sviðsstjóri lækninga slysa- og bráðasviðs LSH eru ekki jafnsvartsýnir.
„Þetta tefur okkur ekki því við förum af stað með bráðatækna og neyðarbílsmann en sendum annan bíl eftir lækninum,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, sem bætir því við að einnig verði lögð áhersla á að skipuleggja á hvaða slökkvistöðvum bráðatæknar með hvað mesta menntun verða, s.s. til að minnka útkallstíma til sem flestra skjólstæðinga.
Ef óviðunandi þá endurskoðun
Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga slysa- og bráðasviðs LSH, segir að reynt verði að koma í veg fyrir að útkallstími lengist og vart sé hægt að áætla hvort hann lengist eitthvað með breytingunni. „Tveir bílar fara af stað, annar tekur lækni með og hann kæmi þá aðeins seinna á vettvang. Ég er ekki viss um að þetta sé verra því það eru hlutir sem gera þarf, staðlaðir hlutir, sem bráðatæknar eru fullfærir um.
Hvernig þetta verður í mínútum og sekúndum er eitthvað sem kemur í ljós. Ef þetta verður óviðunandi verðum við að endurskoða fyrirkomulagið. En þetta er það sem við förum að stað með.“
Ósk kom um að útkallsbíll yrði staðsettur við bráðamóttökuna en hún hefur verið lögð til hliðar, alla vega í bili. Er það m.a. illfær leið sökum kostnaðar við að manna bíllinn.
Vel hefur komið fram að læknar á neyðarbílnum eru ósáttir við breytingarnar og telja mannslíf í húfi. Már segir að með breytingunum verði jafnframt farið í að auka gæðin. „Við munum fara yfir öll útköll og leggja mat á hvað var gert, hvað fór úrskeiðis o.s.frv.
Við erum því að taka framfaraskref hvað skráningu varðar, við erum að taka framfaraspor hvað varðar bráðatækna en erum að sjálfsögðu að breyta kerfinu og það innan marka þess að mögulega séum við að taka spor aftur á bak – en við vitum það ekki enn.“
Eftir Andra Karl
Morgunblaðið 09.01.2008