BJÖRN Flygenring, hjartasérfræðingur, tók þátt í undirbúningi að nýju húsnæði Abbot Northwestern-sjúkrahússins í Minneapolis, en deildin sem hann starfar við, Minneapolis Heart Institute, er sjálfstæð eining innan þess spítala. Hann segir byggingu nýja spítalans, sem tekinn var í notkun fyrir tveimur árum, hafa verið gríðarlegt átak. Gamla húsnæðið var farið að há starfsemi sjúkrahússins að ákveðnu leyti, t.d. voru margar sjúkrastofanna tveggja manna. Markmiðin með nýjum spítala voru m.a. að stytta legu sjúklinga og veita skjótari og betri þjónustu. Þá var einnig eitt höfuðmarkmiðanna að gera umhverfið heimilislegra. „Allt þetta gekk eftir,“ segir Björn. „Legudögum hefur fækkað, þjónustan er sveigjanlegri og gengur hraðar fyrir sig, upplýsingaflæðið batnaði og öryggi sjúklinga, t.d. hvað varðar lyfjagjafir, stórjókst. Það eru nú minni líkur á mistökum og sýkingum hefur fækkað með tilkomu einkastofa. En það var óhemju vinna að undirbúa nýjan spítala.“
Auðveldar ákvarðanatöku
Björn bendir á að rafrænt upplýsingakerfi, s.s. rafrænar sjúkra- og lyfjaskrár, sé ekki síður mikilvægt. Var slíku kerfi komið á um ári áður en flutt var inn í nýjan spítala. „Sjúkrahúsið okkar er nú nánast pappírslaust,“ segir Björn. Upplýsingakerfið geymir allar upplýsingar um sjúklinga, allar meðferðir, hjúkrun, lyfjagjafir, rannsóknir og fleira sem hægt er að nálgast við hvert sjúkrarúm. Björn segir þennan greiða aðgang að upplýsingum gera heilbrigðisstarfsfólki kleift að taka ákvörðun um meðferðir fljótt og vel. „Þetta eykur öryggi sjúklinga til muna,“ segir hann, „og þetta er alveg jafn mikilvægt og steinsteypan og kostar nánast það sama. Um þetta þurfa heilbrigðisyfirvöld að vera meðvituð.“ Kostnaður við kerfið á sjúkrahúsinu var um 150 milljónir dollara.
Heimilislegt umhverfi hraðar bata sjúklinga
Spurður hvað þurfi sérstaklega að hafa í huga við byggingu nýs sjúkrahúss á Íslandi segir Björn lykilatriði að huga að rafrænu upplýsingakerfi í tíma. „Það er einnig mjög mikilvægt að sjúkrahúsið verði sem heimilislegast og þægilegast fyrir sjúklinga og starfsfólk. Þegar fólk er veikt þarf að gera allt sem hægt er til að gera umhverfið sem best úr garði því þá batnar fólki fyrr. Þetta veit fólk á Landspítalanum og að þessu er stefnt við byggingu nýs sjúkrahúss.“
Þá segir Björn auk þess mikilvægt að hafa í huga að tækni og meðferðir séu í stöðugri þróun og sjúkrahúsbyggingin þurfi því að bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika. Bendir hann í því sambandi á að aðgerðir í dag krefjist margar hverjar mun styttri legu en áður. Sú þróun eigi eftir að halda áfram. „Í framtíðinni verður meiri áhersla lögð á starfsemi gjörgæsludeilda og dagdeilda á hátæknisjúkrahúsum en minni á starfsemi langlegudeilda,“ segir Björn.
Spurður hvort áherslur séu réttar þegar ákveðið er að byggja sjúkrahús með einkastofum þegar ekki tekst að manna störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á LSH við núverandi aðstæður, svarar Björn því til að í rauninni þurfi ekki fleira hjúkrunarfólk til starfa þar sem eru einkastofur fremur en tveggja manna stofur, en hins vegar sé skortur á hjúkrunarfólki alþjóðlegt vandamál. „Það er aðeins ein leið til að leysa það og það er að gera störfin eftirsóknarverð. Það er svo einfalt. Starfsumhverfið verður að vera gott og starfið vel launað. Það sem er svo mikilvægast af öllu er starfsánægjan. Starfsfólk verður að vita að það sé að vinna gott starf og að því sé umbunað eða hælt samkvæmt því. Það er síðan ómetanlegt að gefa fólki alltaf tækifæri til að vaxa í starfi.“
Í hnotskurn
» Björn Flygenring hjartasérfræðingur er fæddur í Reykjavík árið 1953 og á m.a. ættir að rekja til Laxamýrar.
» Hann fór í nám til Bandaríkjanna árið 1984 og hefur enn ekki snúið til baka.
» Nú starfar hann á einni stærstu hjartadeild í heimi og var um tíma forstjóri hennar.
» Hann tók þátt í undirbúningi nýs sjúkrahúss í Minneapolis sem hann segir hafa verið gríðarlega vinnu sem nú, tveimur árum eftir að byggingin var tekin í notkun, hefur þegar skilað miklum árangri.
» Árangurinn er m.a. mældur í fækkun sýkinga og legudaga en ekki síst í ánægju sjúklinga með þjónustuna.
Morgunblaðið 25.04.2008