„Við leggjum okkur fram eins og hægt er og einskis látið ófreistað að þetta sé í því lagi sem best er,“ segir Bjarni Kjartansson, rekstrarstjóri Laugardalslaugar, um viðbrögð og þjálfun starfsmanna sem komu veikum manni til aðstoðar um síðustu helgi. Læknar og sjúkraflutningamenn sem blaðamaður ræddi við um hrósuðu þeim sérstaklega fyrir að sýna snarræði.
Karlmaður fékk fengið hjartaáfall í sundlauginni um hádegisbil sl. sunnudag og var hann fluttur með forgangi á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Þaðan var hann fluttur á gjörgæsludeild spítalans við Hringbraut þar sem honum var haldið sofandi. Maðurinn er hins vegar á batavegi og ekki lengur á gjörgæslu. Ekki fengust upplýsingar um það í dag hvort búið sé að útskrifa manninn eður ei.
Bjarni segir aðspurður að svona atvik heyri sem betur fer til undantekninga. „Það er með þetta eins og allar aðrar varúðarráðstafanir; við vonum alltaf að slysin gerist ekki en erum tilbúin ef þau verða,“ segir hann.
Bjarni segir ennfremur, að það taki mjög á þá sem berjist fyrir lífi fólks. Í kjölfar svona atburða sé starfsmönnum ávallt boðið upp á áfallahjálp og farið sé yfir það sem gerðist.
Allir hafa hlutverki að gegna
Maðurinn var að synda þegar hann kenndi sér meins í Laugardalslaug. Kona, sem var gestur í lauginni, varð vör við það og fór til hans. Fljótlega var annar sundlaugagestur kominn til þeirra og stuttu síðar stakk sundlaugavörður sér til sunds. Fólkið hjálpaðist að við að koma veika manninum upp á sundlaugarbakkann og endurlífgun hófst þegar í stað.
Ákveðið ferli hefst þegar starfsmenn ýta á sérstakan öryggishnapp. „Kerfið fór í gang og þá hafa allir sitt ákveðna hlutverk,“ segir Bjarni.
Það sé t.d. hlutverk starfsmanna í afgreiðslunni að hafa samband við Neyðarlínuna. „Ef þetta er alvarlegt tilvik þá er skilaboðum komið til afgreiðslunnar að biðja um forgang,“ segir Bjarni og bætir við að það hafi verið gert að þessu sinni.
Allir starfsmennirnir hafa hlotið þjálfun í að veita skyndihjálp, en Oddur Eiríksson hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins heldur utan um kennsluna.
„Þess vegna getur hver tekið við að öðrum. Ef um langa endurlífgun er að ræða þá eru allir laugarverðirnir — þrír talsins — í nægilega góðu líkamlegu góðu formi til þess að halda þessu áfram,“ segir Bjarni.
Starfsmenn þjálfaðir í að nota hjartastuðtæki
Þeir hafa jafnframt hlotið þjálfun í að beita hjartastuðtæki sem er til taks í húsinu og var það notað á sunnudaginn. „Allir eru búnir að læra á þetta tæki,“ bætir Bjarni og heldur áfram: „Á hverju einasta ári er endurmenntun í þessu og síðan eru björgunaræfingar á hverri vakt með reglulegu millibili. Ekki er lengra á milli heldur en þrír mánuðir.“
Bjarni segir að lokum að menn geri allt „til þess að við getum verið eins róleg með gestina okkar sem mögulegt er.“
www.mbl.is 23.01.2013