-Auglýsing-

Að spara sjúklingum sporin

Þorgerður Ragnarsdóttir svarar grein Ásgeirs Jónssonar hjartalæknis: “Tilboð Tryggingastofnunar um að spara hjartasjúklingum sporin með því að taka á móti reikningum beint frá hjartalæknum stendur enn.”

ÁSGEIR Jónsson hjartalæknir skrifaði grein undir yfirskriftinni “Krýsuvíkurleið til hjartalæknis” í Morgunblaðið 5. mars sl. Greinin fjallar um reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nr. 241/2006 um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum. Í greininni er á nokkrum stöðum vikið orðum að Tryggingastofnun sem framkvæmdaaðila almannatryggingalaga á þann veg að ástæða er til nokkurra leiðréttinga og athugasemda.

Nafngift greinar Ásgeirs vísar til þess að sjúklingar þurfa samkvæmt reglugerðinni að leggja leið sína á tvo staði auk ferðar til hjartalæknisins til að nálgast endurgreiðslu Tryggingastofnunar fyrir þjónustu hjartalæknis, þ.e. til heimilis- eða heilsugæslulæknis, hjartalæknis og Tryggingastofnunar. Ásgeir er ekki einn um að þykja þetta óþarfa krákustígar fyrir sjúklinga sem leita læknis vegna alvarlegra sjúkdóma. Vert er að minnast þess að Tryggingastofnun fór fram á að hjartalæknar settu greiðslukvittanir sjúklinga í umslög og sendu stofnuninni í lok vinnudags. Tryggingastofnun gæti síðan lagt endurgreiðsluna inn á reikninga sjúklinganna og þannig sparað þeim sporin. Því miður höfnuðu hjartalæknar þessari beiðni. Tekið skal fram að önnur heilbrigðisstétt, sem ekki hefur gert samning við samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, er einmitt að senda greiðslukvittanir til Tryggingastofnunar til hagsbóta fyrir sjúklinga sína.

-Auglýsing-

Ásgeir heldur því fram í greininni að reglugerðin “…geri ekki ráð fyrir neinni undantekningu jafnvel þótt um bráðatilvik sé að ræða…” Það er rétt að samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 1090/2006 er það skilyrði fyrir endurgreiðslu Tryggingastofnunar að fyrir liggi tilvísun á sérfræðiþjónustuna frá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Benda má þó á að úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur vikið frá því skilyrði, sbr. úrskurð í máli nr. 236/2006. Í því tilviki var um að ræða sjúkling sem sannanlega hafði haft samband við heilsugæslustöð vegna brjóstverks en var vísað áfram á bráðamóttöku sjúkrahúss. Sjúkrahúsið vísaði síðan sjúklingnum áfram til hjartalæknis. Samþykkt var endurgreiðsla þrátt fyrir að sjúklingurinn hefði ekki haft tilvísun.

Ásgeir spyr hvort reglugerðin standist lög um almannatryggingar, lög um atvinnuréttindi og kröfu um jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna. Það er skemmst frá því að segja að ítrekað hefur úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfest að reglugerðin standist ofangreind lög.

- Auglýsing-

Það er rétt að á vef Tryggingastofnunar www.tr.is birtist frétt 22. des. sl. um breytingu á reglugerð nr. 1076/2006 sem ákvarðar greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu veitta þeim sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi. Það er líka rétt að þar kemur fram að komugjöld þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir á heilsugæslustöðvar hækki úr 4.000 kr. í 6.100 kr. Þessar upplýsingar eru því miður misvísandi og skiljanlegt að Ásgeir álykti eins og fram kemur í greininni. Hið rétta er hins vegar að komugjald ósjúkratryggðra á dagvinnutíma er 4.100 kr. eftir breytinguna. Upphæðin 6.100 kr. er komugjald utan dagvinnutíma. Þetta hefur nú verið leiðrétt á vef Tryggingastofnunar.

Það er líka rétt, eins og Ásgeir heldur fram, að ekki tókust samningar við hjartalækna um endurgreiðslur fyrir þjónustu þeirra og er það miður. Það er hins vegar ekki rétt að hjartalæknar hafi staðið í samningaviðræðum við Tryggingastofnun. Hjartalæknar voru í samningaviðræðum við samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 skipar heilbrigðis- og tryggingaráðherra nefnd sem semur við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu.

Hjá Tryggingastofnun er lögð áhersla á að veita viðskiptavinum góða þjónustu sem tekur mið af mismunandi þörfum þeirra. Hjartasjúklingar eru þar engin undantekning. Starfsfólk Tryggingastofnunar starfar eins og hjartalæknar eftir lögum sem Alþingi ákveður og reglugerðum sem ráðherrar setja. Burtséð frá hvort ramminn sem lög og reglur marka þyki réttlátur eða ranglátur leitast Tryggingastofnun við að veita eins góða þjónustu og unnt er. Til að bæta þjónustuna getur samstarf við heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir þurft að koma til. Tilboð Tryggingastofnunar um að spara hjartasjúklingum sporin með því að taka á móti reikningum beint frá hjartalæknum stendur enn. Boltinn er hjá hjartalæknum.

Höfundur er forstöðumaður kynningarmála hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Morgunblaðið 15.03.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-