Hemmi Gunn

HemmiHemmi Gunn er látinn og samkvæmt fréttum fjölmiðla var banamein hans hjartaáfall. Ég þekkti Hermann ekki persónulega en hann hefur verið reglulegur gestur á mínu heimili í áratugi og ég eins og þúsundir annarra Íslendinga hef heillast af þessum manni. Hemmi hafði einstakt hjartalag, mátti ekkert aumt sjá og fór sérstaklega vel úr hendi að láta öðrum líða vel.

Ég hef munað eftir Hemma nánast allt mitt líf, hann hefur auðgað líf mitt og fjölskyldu minnar og gert það skemmtilegra á sinn einstaka og ljúflega hátt. Hann hafði einstaklega gott lag á því að kitla hláturtaugar okkar Íslendinga og fyrir það erum við þakklát.

Fyrir tíu árum fékk Hemmi hjartaáfall og fór yfir móðuna miklu eins og hann lýsir í viðtali við fréttablaðið frá þeim tíma. Auk þess þá birtist einlægt viðtal við Hermann á pressan.is um þessa reynslu sína. Í það skipti átti hann afturkvænt en ekki núna, eilífðarlandið handan við sól og mána er hans staður í dag.

Enn einu sinni erum við minnt á hvað er stutt á milli lífs og dauða og engin veit sína ævi fyrr en öll er.

Hemma Gunn verður minnst um ókomna tíð enda einstakur persónuleiki þar á ferð og við sitjum hnípin um stund með sorg í hjarta en minnumst þess um leið að Hemmi var maður gleðinnar og hans verður best minnst með hressilegu lófataki og hlátrasköllum.

Takk Hemmi fyrir allar gleðistundirnar og hvíldu í friði.

Auglýsing

Björn Ófeigsson

Myndin er frá Pressan.is